Tekur Sinatra á morgnana

Hinn 10 ára söngvari Bjarni Gabríel Bjarnason hér mættur í …
Hinn 10 ára söngvari Bjarni Gabríel Bjarnason hér mættur í fyrsta útvarpsviðtalið á ferlinum ásamt fjölskyldumeðlimum. Mynd/ Magasínið

Hinum 10 ára gamla Bjarna Gabríel Bjarnasyni,  finnst fátt skemmtilegra en að fá að skemmta fólki og koma fram. Hann mætti í fyrsta útvarpsviðtalið á ferlinum er hann heimsótti Hvata og Huldu í Magasínið á K100 í gær. 

Gælunafnið Gullkrulla

„Gullkrullan“ og söngvarinn Bjarni Gabríel sagði í viðtalinu frá söngferlinum, því þó ferillinn sé ekki ýkja langur þá er ljóst að drengurinn er ófeiminn og hæfileikaríkur. Að því gefnu að drengurinn vilji starfa í skemmtanabransanum, þá er ljóst að honum eru allir vegir færir eftir góða byrjun. Hann hefur aldrei æft söng, en hann hefur lagt stund á fótbolta og nú nýlega fimleika og ballet. 

Nafnið „Gullkrulla“ er tilkomið vegna gælunafnsins sem móðir hans, Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, notar gjarnan um drenginn á Facebook síðu sinni. Þar hefur vinum Evu Daggar gefist tækifæri að fylgjast með drengnum taka þátt í skemmtunum, meðal annars í Kringlunni og nú síðast í Jólagestum Björgvins. Það er öllum ljóst sem horfa á drenginn að hann elskar að koma fram og skemmta fólki. 

Sjálfsprottin áhugi

Nokkrir ættingjar Bjarna Gabríels hafa skemmt þjóðinni í marga áratugi og því má segja að hann hafi ekki langt að sækja hæfileikana. Móðir hans lýsir því þannig að þau séu honum meira til stuðnings og leiðsagnar þegar hann sýni söngnum og leiknum áhuga. Hann hafi til að mynda stundum fengið leiðsögn hjá móðurbróður sínum, leikaranum og skemmtikraftinum Björgvini Frans.

Drengurinn tekur undir þau orð móður sinnar en segist þó mest vinna í þessu sjálfur með því að grúska, taka upp eigin framkomu og æfa sig með aðstoð tölvutækninnar. „Einu sinni var ég alltaf í tölvunni að hlusta á lög og átta mig á hvernig ég verð góður að syngja,“ segir hann og mamma bætir því við að hann viti upp á hár hvað hann vill, til að mynda hvernig hann vilji syngja lögin og hvernig hann vilji klæða sig. 

Gísli Rúnar Jónsson, einn fjölskyldumeðlima, var viðstaddur meðan viðtalið fór fram. Þáttastjórnendur notuðu tækifærið að spyrja hann út í hæfileika drengsins og hæfileika ungra krakka almennt. Er þetta meðfætt að einhverju leyti? „Ég hef komist að raun um að það er ekki hægt að kenna hæfileika,“ segir Gísli Rúnar og bætir við að það sé samt hægt að verða „Hell of a showman,“ líkt og Gísli Rúnar lýsir því. Hann segist þó hafa mest gaman af því hvað þetta er sjálfsprottið hjá Bjarna Gabríel. „Hann er svo sjálfstæður því það hefur enginn verið að etja honum í foraðið.“

Skrýtið að gefa eiginhandaráritun

Það að vera orðin þekkt stærð í samfélagi gæti verið skrýtið fyrir 10 ára gamlan dreng. En Bjarni Gabríel hefur gaman af því að koma fram, þó að honum hafi vissulega þótt skrýtið að vera beðinn um fyrstu eiginhandaráritunina. „Ég skrifaði rosa hræðilega. Af því að þetta var ekki á borði og ég þurfti að halda á þessu í höndum,“ segir hann og kætir viðstadda með skemmtilegum og einlægum lýsingum. 

Elskar Sinatra slagara

Það byrja ekki allir 10 ára daginn á því að syngja stórslagara eftir Frank Sinatra. En sú er raunin suma daga segir Eva Dögg. Bjarni Gabríel staðfestir að hann hafi gaman af því að taka til dæmis lög á borð við „Come fly with me“ og „I did it my way“.   

Að lokum tók Bjarni Gabríel lagið við miklar og góðar undirtektir enda ljóst að honum verða allir vegir færir í skemmtanageiranum, hafi hann áframhaldandi áhuga á sviði listar- og menningar. Viðtalið við þennan unga gleðigjafa má nálgast hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert