Leita á spítalann vegna andþyngsla

Einhverjir þurftu að leggjast inn á Landspítalann í dag vegna …
Einhverjir þurftu að leggjast inn á Landspítalann í dag vegna andþyngsla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimmtán manns hafa leitað á Landspítalann frá því klukkan átta í morgun vegna andþyngsla að sögn Jóns Magnússonar, yfirlæknis á Landspítalanum. Mikil mengun hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar gamlárskvölds.

„Flestir eru þetta einstaklingar sem eru með undirliggjandi lungnasjúkdóm,“ segir hann í samtali við mbl.is.

„Þessir sjúklingar koma og eru þá með mikla mæði og andnauð og þurfa að fá hjá okkur súrefni og sérhæfða innúðameðferð,“ segir Jón. Í einhverjum tilfellum hafi sjúklingarnir þurft á innlögn að halda.

Hann segir fleiri hafa leitað á spítalann með öndunarerfiðleika heldur en þegar náttúruhamfarir á borð við eldgos hafa átt sér stað. Einnig séu tilfellin fleiri heldur en þeir megi venjast eftir gamlárskvöld.

Alls segir Jón 60 manns hafa leitað á spítalann í nótt, frá miðnætti og fram til klukkan átta í morgun. Lítið hafi þó verið um andþyngsli á þeim tíma. „Í dag hefur þetta verið töluvert mikið og við erum að sjá 20 til 25 prósent fleiri komur síðastliðinn sólarhring í heildina heldur en við gerum á meðaldegi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert