Langtímasátt um velferðarkerfið mikilvæg

Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson er forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það geti alveg verið raunsönn lýsing á þessum aðstæðum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um það hvort hefja þurfi viðræður stjórnvalda og vinnumarkaðsaðila á ákveðnum núllpunkti.

Hann tekur þannig að nokkru leyti undir þau orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem birtust í ViðskiptaMogga dagsins, um að í komandi kjaraviðræðum þurfi að leggja alveg nýjan grundvöll fyrir samtal stjórnvalda og vinnumarkaðar, í ljósi þess að ekki hafi allir verið aðilar að Salek-samkomulaginu.

Gylfi segir einnig í samtali við mbl.is að nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn nái langtímasátt um langtímahugsun um grundvallaratriði í samfélaginu.

„Það er orðin mjög mikil óþreyja innan okkar raða að minnsta kosti, í samskiptum við stjórnvöld og mikið vantraust á milli aðila,“ segir Gylfi.

Hann segist hafa talað fyrir því í lengri tíma í ræðu og riti að það sé verk að vinna við að endurreisa traust á milli stjórnvalda og vinnumarkaðarins, til þess að að hægt sé að stíga skref áfram inn í sameiginlega framtíð. Það segir Gylfi að verði að vera sameiginlegt verkefni vinnumarkaðar og stjórnvalda.

„Forsætisráðherra hefur tekið það svolítið á orðinu og við höfum fagnað því og erum að vinna í því bara, að taka þessi ágreiningsmál og leiða þau til slíkra lykta að það geti myndað einhverjar brýr á milli. Það er engin launung á því að þessi ólga sem er í samfélaginu, það þarf einhvern veginn að vinna með hana. Það gerist best með því að reyna að finna einhverja sáttafleti á milli stjórnmálanna og vinnumarkaðarins,“ segir Gylfi.

Langtímahugsun nauðsynleg

Hann segir mikilvægt að stjórnvöld móti langtímahugsun og langtímasátt um veigamikla þætti sem hafi áhrif á öryggi félagsmanna ASÍ til afkomu og starfa. Með því eigi hann við velferðarkerfið í heild sinni – heilbrigðiskerfið og menntakerfið.

„Það er mikilvægt að pólitíska valdið í landinu sé sammála því að þetta sé ekki eitthvað sem er hverfult eftir því hver fer með ríkisstjórnarvaldið hverju sinni,“ segir Gylfi.

Að mati ASÍ auka fyrstu fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á ójöfnuð í landinu.

„Það rata inn í stjórnarsáttmála ýmis fyrirheit, en ekki inn í fjárlög, nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta eru bara fyrstu fjárlög og allt það, en við sögðum í ályktun okkar um fjárlögin að það væri dálítið erfitt að halda þeim jákvæða tón sem við settum út við myndun þessarar ríkisstjórnar þegar maður sér síðan niðurstöðuna í fjárlögunum,“ segir Gylfi.

Fulltrúar ASÍ funduðu með stjórnvöldum í gær, en að sögn Gylfa er ekki búið að tímasetja næsta fund.

„Við þurfum aðeins að vinna úr þessum fundi sem var í gær. Þetta er nú ekki bara eftirspurn eftir samtölum, við mælum ekki árangurinn í því hvort við náum fundi með ráðherra eða ekki. Árangurinn verður fyrst og fremst mældur af því hvort þeir leiða til þeirra breytinga eða niðurstaðna sem gagnast okkar fólki,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka