65 á biðlista eftir magaminnkun

65 manns eru nú á biðlista eftir magaminnkunaraðgerð hjá Landspítala, …
65 manns eru nú á biðlista eftir magaminnkunaraðgerð hjá Landspítala, en margir sem fara í slíka aðgerð losna í kjölfarið við ýmsa fylgisjúkdóma við offitu. AFP

Magaermaraðgerðum fer fjölgandi á Landspítalanum, en þar eru einnig framkvæmdar svo nefndar magahjáveituaðgerðir. Páll Helgi Möller, yfirlæknir kviðarhols- og brjóstholsskurðlækninga á Landspítalanum, segir engar aðgerðir áhættulausar, enda séu fylgikvillar aðgerða vel skilgreindir og oft erfitt að sjá fyrir hverjir verði fyrir þeim.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að ung kona hefði nýlega látist á Landspítalanum og að andlátið hefði verið tilkynnt Landlækni sem óvænt atvik. Er konan sögð hafa gengist undir magaermaraðgerð á einkaklíník um hálfu ári áður og sé nú rannsakað hvort aðgerðin tengist andlátinu.

Landlæknisembættið staðfesti í sambandi við mbl.is að embættinu hefði borist tilkynning frá spítalanum um óvænt atvik, en að ekki yrði greint frá því hvers eðlis það væri. Landspítalinn tjáir sig heldur ekki um einstök málefni einstakra sjúklinga.

Fleiri velja enn magahjáveitu

„Magaermaraðgerðir hafa verið gerðar á spítalanum í vaxandi mæli sl. 3-4 ár,“ segir Páll. Voru á síðasta ári gerðar í kringum 20 slíkar aðgerðir á Landspítalanum, en 42 magahjáveituaðgerðir. „Þær [magahjáveituaðgerðirnar] eru ennþá algengari, en þeim fer þó fjölgandi sem velja magaermaraðgerðina“ segir hann. Svo nefndar magabandsaðgerðir eru hins vegar ekki framkvæmdar á Landspítalanum.

65 manns eru nú á biðlista eftir magaminnkunaraðgerð á Landspítalanum. Stefnt er að því að vinna niður biðlistann á þessu ári.

Landspítalinn í Fossvogi. Þeir sem fara í magaminnknaraðgerð á Landspítalanum …
Landspítalinn í Fossvogi. Þeir sem fara í magaminnknaraðgerð á Landspítalanum liggja inni yfir nótt að aðgerð lokinni og síðan útskrifaðir daginn eftir, sýni einstaklingurinn ekki merki um fylgikvilla. mbl.is/Eggert

Maginn minnkaður en meltingarvegurinn helst óbreyttur

Páll útskýrir að við magahjáveituaðgerð [e. gastric bypass] sé maganum skipt í tvennt, minni hluta sem fæða fer um og svo stærri hluta sem er frátengdur, þ.e. ekki er fjarlægður neinn hluti magans. Þá sé smágirninu skipt, fjærhluti þess tengdur við litla magann en nærhluti við fjærhluta smágirnis 150 cm frá tengingu litla magans og smágirnis. Aðgerðin feli þannig í sér magaminnkun auk þess sem leið fæðu um meltingarveg hefur verið stytt.

Engin hjáveita sé hins vegar gerð með magaermaraðgerð [e. gastric sleeve]. „Þá er stór hluti af maganum fjarlægður með því að taka af honum endilöngum og magarúmmálið þannig minnkað,“ segir Páll og útskýrir að meltingarvegurinn haldist þannig óbreyttur utan áðurnefndrar minnkunar á maganum.

Spurður hvort magaermin feli þá í sér minna inngrip, segir Páll að aldrei skuli gera lítið úr neinni aðgerð. „Það geta allar aðgerðir snúist upp í andhverfu sína á augabragði,“ segir hann. Fylgikvillar fylgi ekki síður litlum aðgerðum en stórum.

Losna við fylgisjúkdómana

Þeir sem fara í umræddar aðgerðir á Landspítalanum liggja inni yfir nótt að aðgerð lokinni og eru útskrifaðir daginn eftir, sýni einstaklingurinn ekki merki um fylgikvilla.

Páll segir mikla kosti við aðgerðirnar fyrir þá sem á þeim þurfi að halda. „Margir af þeim sjúklingum eiga við aðra fylgisjúkdóma að stríða, eins og sykursýki, blóðfituraskanir, háþrýsting og kæfisvefn,“ útskýrir hann. „Það eru fylgisjúkdómarnir sem margir losna við og það er einn af kostunum við aðgerðirnar.“

Hvorki magaermi né magahjáveita eru þó áhættulausar frekar en aðrar aðgerðir. „Einn fylgikvilli sem er þekktur er svo kallaður leki,“ segir hann og útskýrir að þar eigi hann við leka á tengingu. „Þá lekur garnainnihald út í kviðarholið og viðkomandi fær lífhimnubólgu og getur þá þurft á annarri aðgerð að halda. Það er slæmur fylgikvilli,“ segir Páll. Þá fylgi, líkt og öðrum aðgerðum, einnig hætta á blæðingum, sýkingum og blóðtappa þó sjaldgæft sé.

Áhætta á þessum fylgikvillum eru fyrir hendi í öllum þeim aðgerðum sem eru framkvæmdar í kviðarholi þar sem gerðar eru tengingar milli líffæra eins og smágirnis eða ristils. „Þar eru þessar hættur fyrir hendi og skurðlæknar þekkja til þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert