Flugfélagið fær ekki nýja heimild

Ljósmynd/Air Atlanta

Hergagnaflutningar flugfélagsins Air Atlanta til Sádi-Arabíu verða ekki lengur leyfðir en íslensk stjórnvöld höfnuðu í dag beiðni félagsins um að flytja áfram vopn til landsins. Fram kom í fréttaskýringaþættinum Kveik í Ríkisútvarpinu í kvöld að vopnin væru flutt frá Sádi-Arabíu til Sýrlands og Jemen þar sem átök hafa geisað sem bitnað hafa mjög á óbreyttum borgurum.

Fjallað var um þetta í tíufréttum Ríkisútvarpsins og haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að utanríkisráðuneytið hafi veitt neikvæða umsögn um umsókn Air Atlanta um endurnýjaða heimild og samgönguráðuneytið síðan hafnað umsókninni í kjölfarið.

Katrín sagðist aðspurð ekki telja að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn lögum til þessa í tengslum við málið en að svo virtist sem andi vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hefði ekki bein áhrif á Íslandi, hafi ekki skilað sér nægjanlega í framkvæmd stjórnvalda við veitingu slíkra heimilda. Slíkar heimildir yrðu ekki veittar á ný fyrr en reglur hafi verið endurskoðaðar.

Forsætisráðherra sagði enn fremur að lærdómurinn af málinu að hennar mati væri að ekki ætti að veita slíkar heimildir sjálfkrafa heldur þyrfti að skoða aðstæður í hverju tilfelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert