Dómur í Glitnismáli á morgun

Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis fór fram í janúar og febrúar. …
Aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis fór fram í janúar og febrúar. Dómsuppkvaðning verður á morgun. mbl.is/Hari

Á morgun verður kveðinn upp dómur í héraðsdómi í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, en í því voru fimm starfsmenn bankans ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og einn auk þess fyrir umboðssvik. Aðalmeðferð málsins fór fram frá 17. janúar til 2. febrúar.

Saksóknari málsins fór fram á 6-18 mánaða skilorðsbundna dóma yfir þremur mannanna í ljósi stöðu þeirra innan bankans og að þeim hafi ekki áður verið gerð refsing. Lýstu þeir sjálfum sér sem einskonar starfsmönnum á plani.

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, er í málinu bæði ákærður fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Saksóknari fer ekki fram á frekari refsingu yfir Lárusi, en hann hefur þegar verið dæmdur í sex ára fangelsi í öðrum hrunmálum. Er það hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi.

Saksóknari fer fram á eins árs hegningarauka yfir Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis, en við aðalmeðferð málsins sagði saksóknari að ótvírætt væri að brotin hefðu verið framin með vitund og vilja Jóhannesar og Lárusar.

Áður hafa fallið þungir dómar í markaðsmisnotkunarmálum Landsbankans og Kaupþings þar sem tekist hefur verið á um viðskiptavakt bankanna með eigin hlutabréf og hvort starfsmenn hafi haldið verði bréfanna uppi með því að kaupa þau á markaði og svo selja þau til félaga í eigu starfsmanna eða vildarviðskiptavina með lánveitingum frá bönkunum og þannig án áhættu fyrir kaupendurna.

Verjendur í Glitnismálinu telja hins vegar að málin séu ólík þar sem Glitnir hafi tilkynnt að bankinn væri með viðskiptavakt. Þá gagnrýndi einn verjandi að málinu væri líkt við markaðsmisnotkunarmál Landsbankans og Kaupþings, en samt hefði yfirmaður eigin viðskipta, þeirrar deildar sem sá um kaup bréfanna (kauphliðin) sloppið við ákæru. Hann hafði áður fengið friðhelgi fyrir samstarf sitt með saksóknara í tveimur öðrum málum, en fram kom að svo væri ekki í þessu máli. Hins vegar ákvað saksóknari að ákæra hann ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert