Hafísinn heldur áfram að nálgast

Kort/Ingibjörg Jónsdóttir

„Það eru óvenjulega stöðugar veðuraðstæður sem hafa átt þátt í því að færa hafísinn svona óvenjulega nærri landi,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, en hafísþekjan á Grænlandssundi er nú tæpar 12 sjómílur frá Horni á Vestfjörðum.

Um þessar mundir er hæð sunnan við landið og hefur staðið frá því á miðvikudag í síðustu viku. Henni fylgir stöðug suðvestanátt sem ýtir ísnum að Vestfjörðum, en á þessum slóðum eru einnig straumar í þessa sömu átt.

Lítill hafís hefur verið á svæðinu norðvestur af landinu undanfarin ár, en það eru helst veðuraðstæður sem hafa fært hann svo nálægt Íslandi.

Óvenjulegt er að suðvestanvindur standi svo lengi og í sömu átt og hafstraumarnir. Í vetrarlægðum er norðaustanátt algeng, sem heldur hafísnum í burtu. „Þetta er tíminn þar sem slaknar á öllum veðrakerfum og hafísinn getur breitt úr sér áður en hann bráðnar og eftir verða stakir jakar,“ segir Teitur.

Gera má ráð fyrir því að suðvestanáttin standi fram á föstudag og má því gera ráð fyrir því að hafísinn færist enn nær landi. Þá er mögulegt að siglingaleið við land gæti lokast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert