Finna ekki Ólaf Ólafsson

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mlb.is/Golli

Samtök sparifjáreigenda hafa höfðað skaðabótamál gegn Ólafi Ólafssyni vegna markaðsmisnotkunar sem átti sér stað í Kaupþingi banka á árunum 2007 til 2008. Samtökin gera kröfu um að Ólafur verði dæmdur til að greiða rúmlega 900 milljónir króna ásamt vöxtum.

Krafan er tilkomin vegna kaupa Stapa lífeyrissjóðs á hlutabréfum í Kaupþingi á árinu 2008 en Samtök sparifjáreigenda eignuðust að lokum hlutabréf Stapa í Kaupþingi fyrir framsal auk réttinda sem þeim fylgja, þar með eru taldar skaðabótakröfur.

Stefnan var birt í Lögbirtingarblaðinu í gær vegna þess að Ólafur er búsettur í Sviss og ekki hefur tekist að afla upplýsinga um heimilisfang hans, hvorki frá utanríkisráðuneytinu né yfirvöldum í Sviss.

Þá hefur lögmaður Ólafs neitað því að skrifa upp á stefnuna eða gefa upp raunverulegt heimilisfang hans, kemur fram í stefnunni.

Skorað er á Ólaf í stefnunni að mæta á dómþing, í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 10.00, fimmtudaginn 13. september 2018, þegar málið verður þingfest.

Markaðsmisnotkun Ólafs leiddi til fjártjóns

Málsóknin byggir meðal annars á markaðsmisnotkun Ólafs sem hann var sakfelldur fyrir í Al Thani-málinu. Samtök sparifjáreigenda telja að bein orsakatengsl séu milli markaðsmisnotkunar Ólafs og fjártjóns Stapa vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi.

Í stefnunni kemur fram að með háttseminni hafi Ólafur blekkt Stapa lífeyrissjóð, annars vegar til að kaupa hlutabréf í bankanum á of háu verði og hins vegar til að selja þau ekki áður en bankinn féll 9. október 2008 með yfirtöku Fjármálaeftirlitsins.

Þá segir einnig í stefnunni að fjártjón Stapa lífeyrissjóðs vegna hlutabréfakaupanna sé afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi Ólafs.

Sambærilegu máli vísað frá í janúar

Samtök sparifjáreigenda hafa áður höfðað skaðabótamál á hendur Ólafi vegna sömu atvika. Þá var Hreiðari Má Sigurðssyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni einnig stefnt en því máli var vísað frá með dómi Hæstaréttar í janúar sl. vegna vanreifunar. 

Í stefnunni, sem er einungis á hendur Ólafi, er gerður áskilnaður um rétt til þess að gefa út fleiri stefnur á síðari stigum málsins.

Ekki hægt að hafa uppi á Ólafi

Eins og áður segir var stefnan birt í Lögbirtingarblaðinu vegna þess að ekki hefur tekist að hafa uppi á raunverulegu heimilisfangi Ólafs í Sviss. Í þjóðskrá Íslands er þess getið að Ólafur eigi lögheimili í Sviss en nánara heimilisfang er ekki skráð.

Í stefnunni kemur fram að lögmaður Ólafs hafi „hafnað því að skrifa upp á stefnuna eða upplýsa um raunverulegt heimilisfang hans þar í landi“.

Þá er það rakið í stefnunni að Sviss sé aðili að Haag-samningnum frá 1965 um stefnubirtingar í einka- og verzlunarmálum og samkvæmt honum verði heimilisfang stefnds manns að vera þekkt svo hægt sé að birta aðila stefnu.

Í Sviss eru upplýsingar um lögheimili manna þar í landi ekki aðgengilegar í opinberum skrám og hvert og eitt 26 sjálfstjórnarsvæða (kantóna) landsins hefur sína eigin stjórnsýslu.

Ekki er hægt að birta stefnuna í lögbirtingarblaði Sviss þar sem það þyrfti að vera ljóst í hverri af 26 kantónum Ólafur byggi og birta hana á því tungumáli sem er opinbert tungumál þar. Í Sviss eru tungumálin fleiri en þrjú og opinbert tungumál mismunandi eftir kantónum segir einnig í stefnunni.

Lögmaður samtakanna leitaði til utanríkisráðuneytisins um aðstoð við að hafa uppi á lögheimili Ólafs en fékk svar um að ráðuneytið hefði „ekki tök á að afla upplýsinga um heimilisföng íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis“.

Ekki náðist í Hróbjart Jónatansson, lögmann Samtaka sparifjáreigenda, né lögmann Ólafs við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert