70 börn á ári slasast við vinnu

Unglingar við vinnu. Slysin sem tilkynnt eru til Vinnueftirlitsins eru …
Unglingar við vinnu. Slysin sem tilkynnt eru til Vinnueftirlitsins eru misalvarleg. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tilkynnt var um 435 vinnuslys barna og unglinga á árunum 2012-2017, eða að meðaltali eitt á fimm daga fresti. Þetta kemur fram í gögnum frá Vinnueftirlitinu. Í gær var greint frá því að 15 ára drengur hefði slasast við vinnu hjá Gámaþjónustu Norðurlands á Akureyri er hann lenti í pressugámi.

Var öll vinna barna á svæðinu við pressugáma eða önnur hættuleg tæki bönnuð. Kom í  ljós að aðbúnaður, holl­ustu­hætt­ir og ör­yggi starfs­manna höfðu ekki verið í sam­ræmi við lög og regl­ur. Vegna alvarleika málsins var því vísað til lögreglu, en að sögn Svövu Jónsdóttur, sviðsstjóra eftirlitsdeildar Vinnueftirlitsins, er það alls ekki alltaf gert.

Vinnuslys ungmenna eru algengust í fiskiðnaði eða á sjöunda tug á árunum sex. Því næst kemur opinber þjónusta en undir hana falla störf á leik- og grunnskólum, hjúkrunarheimilum, unglingavinna og fleiri störf sem ungt fólk tekur sér gjarnan fyrir hendur.

Fara fram á áhættumat

Í kjölfar slysa eins og þess sem varð í gær fer Vinnueftirlitið á vettvang og gerir skýrslu um störf sem unnin eru á vinnustaðnum ásamt hættumati. Í framhaldi er gerð slysaumsögn og vinnustaðnum gefin fyrirmæli um úrbætur.

Fyrirmæli vegna slyss gærdagsins eru fyrir það fyrsta þau að allri vinnu barna við pressugáma og önnur hættuleg tæki sé hætt.

Þá segir Svava það stöðluð vinnubrögð þegar upp koma slys að Vinnueftirlitið óski eftir að áhættumat vinnustaðarins sé endurskoðað með hliðsjón af þeim þáttum sem ollu slysinu. Þess er til að mynda krafist, vegna slyss gærdagsins, að Gámaþjónustan endurskoði áhættumat fyrir vinnu á gámasvæðinu, vinnu við pressugáma og vinnu barna með tilheyrandi úrbótum.

Berist Vinnueftirlitinu ekki tilkynning um úrbætur fyrir 6. ágúst, frídag verslunarmanna, getur komið til stöðvunar eða jafnvel lokunar á þeim hluta starfseminnar sem fyrirmælin beinast að, að því er segir í skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins.

Slysið varð hjá Gámaþjónustunni á Akureyri, sem er dótturfélag Gámaþjónustunnar.
Slysið varð hjá Gámaþjónustunni á Akureyri, sem er dótturfélag Gámaþjónustunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert