Byggingastjóri þarf að greiða bætur vegna galla

Byggingastjórinn þarf að greiða 2,7 milljónir í skaðabætur vegna galla …
Byggingastjórinn þarf að greiða 2,7 milljónir í skaðabætur vegna galla á fasteigninni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landsréttur dæmdi á föstudag byggingastjóra til að greiða kaupanda fasteignar 2,7 milljónir í skaðabætur vegna galla á eigninni sem keypt var fokheld árið 2007. Lækkaði Landsréttur skaðabótagreiðsluna um hálfa milljón frá því sem héraðsdómur hafði áður dæmt, en eigandi eignarinnar hafði farið fram á um 7,6 milljónir í bætur. Hins vegar þarf byggingastjórinn að greiða 3 milljónir í málskostnað fyrir Landsrétti til viðbótar við 2,5 milljónir í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Eigandinn keypti eignina ásamt eiginkonu sinni árið 2007 og var hún þá fokheld. Veturinn 2014-15 taka þau eftir því að loftplata í húsinu væri tekin að síga með óeðlilegum hætti. Fengu þau hönnuð til að meta sigið og komst hann að því að sigið væri 76 mm á miðri plötu, en samkvæmt þágildandi byggingarreglugerð mátti mesta svignun fyrir heildarálag þaka og lofta vera 38 mm. Hafði sigið meðal annars leitt til sprungumyndunar í veggjum.

Eigandinn stefndi bæði byggingafélaginu sem byggði eignina og byggingastjóranum vegna málsins og fór fram á 7,6 milljónir í skaðabætur. Héraðsdómur komst að því að byggingafélagið væri sýkn, en dæmdi byggingastjórann til að greiða 3,2 milljónir auk 2,5 milljóna í málskostnað. Eigandinn var hins vegar dæmdur til að greiða byggingafélaginu 1 milljón í málskostnað.

Byggingastjórinn áfrýjaði málinu til Landsréttar og var gerð önnur matsgerð en fyrir héraðsdómi. Var niðurstaða Landsréttar sú sama og í héraði, það er að byggingastjórinn þyrfti að greiða bætur, en miðað var við upphæð í seinni matsgerðinni sem var örlítið lægri en í þeirri sem unnin hafði verið fyrir héraðsdóm. Sem fyrr segir þarf byggingastjórinn þó að greiða eigandanum aukalega 3 milljónir í málskostnað fyrir Landsrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert