Tengiltvinnbílum hefur fjölgað ört

Fjöldi skráninga á raf- og tengiltvinnbílum 2012 til 2018.
Fjöldi skráninga á raf- og tengiltvinnbílum 2012 til 2018. Teikning/mbl.is

Tengiltvinnbílum hefur fjölgað ört á þessu ári og í fyrra, eins og sést í meðfylgjandi skýringarmynd. Að sögn Samgöngustofu er elsti tengiltvinnbíllinn, sem enn er á skrá, af gerðinni Opel Ampera. Hann var skráður nýr 17. ágúst 2012.

Þeim fjölgaði hægt fyrstu þrjú árin og voru skráðir 29 nýir bílar árið 2014. Nýskráningar tóku kipp 2015 þegar þær urðu nærri sexfalt fleiri en árið áður og árið 2016 var fjölgunin tæplega fimmföld miðað við árið þar á undan. Í fyrra voru nýskráðir alls 2.180 tengiltvinnbílar og nú í september var búið að nýskrá samtals um 2.360 tengiltvinnbíla á árinu.

Saga rafbíla hér á landi er mun lengri en tengiltvinnbíla. Elsti rafmagnsbíllinn var nýskráður 24. mars 1998 og er af gerðinni Peugeot 106 XL Electric. Alls voru fimm rafbílar skráðir hér árið 1998 og tveir árið eftir. Árið 2000 voru skráðir hér fjórir rafbílar, samkvæmt samantekt Samgöngustofu. Svo gerðist ekkert fyrr en árið 2010 að tveir rafbílar voru skráðir. Rafbílaskráningar tóku svo við sér 2012 eins og sjá má á skýringarmyndinni.

Raunar mun fyrsti rafbíllinn sem notaður var hér á landi hafa verið fluttur til landsins árið 1979. Gísli Jónsson pófessor stóð þá fyrir því að flytja inn Electra Van 500 rafbíl frá Bandaríkjunum og fékk hann skráningarnúmerið R 67000. Háskóli Íslands og fjöldi fyrirtækja studdu við verkefnið. Til stóð að gera bílinn upp, að því er fram kom í frétt í Morgunblaðinu árið 2015

Tvinnbílar eru rafknúnir og búnir brunahreyfli sem framleiðir rafmagnið sem knýr bílinn. Tengiltvinnbíl er einnig hægt að stinga í samband til að hlaða drifrafhlöðu bílsins. Rafgeymar rafbíla eru hlaðnir með því að stinga þeim í samband við rafmagn frá rafveitu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert