Rússnesk flugvél fór yfir með látum

Flugvélin er af gerðinni Ilyushin IL76TD og er fjögurra mótora …
Flugvélin er af gerðinni Ilyushin IL76TD og er fjögurra mótora rússnesk fllutningavél. Ljósmynd/Eggert Norðdahl

Mikill hávaði frá rússneskri flutningavél á leið frá Keflavík til Moskvu í gærkvöldi er líklega ástæða þess að aflífa þurfti hross í Grímsnesi, sem sturlaðist og hljóp á girðingu.

Eggert Norðdahl, flugmaður og flugáhugamaður með meiru, varð hennar var þegar hún flaug yfir heimili hans ofan Elliðavatns með miklum hávaða upp úr klukkan 20. Vísir greinir frá því að hross í Grímsnesi hafi tryllst vegna hávaðans.

Síðdegis í gær tók Eggert ljósmynd af vélinni, sem er af gerðinni Ilyushin IL76TD, á Keflavíkurflugvelli. Hann varð síðan var við mikinn hávaða úr flugvél sem flaug yfir heimili hans um klukkan 20 og fór rakleiðis á vefsíðu Flightradar24 þar sem hann sá að um rússnesku flutningavélina var að ræða.

Í samtali við Vísi.is segir Nína Haraldsdóttir á bænum Minni-Bæ, og eigandi útigangshrossa á Grímsnesi, að þau hafi aldrei heyrt svo mikinn hávaða. Aflífa þurfti eitt hrossið, Sviðu frá Firði, vegna þess að það hljóp á girðingu og stórslasaðist. Hún furðar sig á því að ekki hafi verið látið vita fyrirfram af svona flugi.

Landhelgisgæslan gat ekki staðfest við mbl.is að um tiltekna vél hafi verið að ræða, en sagði ólíklegt að flugvél í 20.000 feta hæð gæti valdið svo miklum hávaða.

Hér má sjá staðsetningu og hæð vélarinnar klukkan 20:10.
Hér má sjá staðsetningu og hæð vélarinnar klukkan 20:10. Skjáskot/Flightradar24
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert