Kona fer í stríð hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Benedikt Erlingsson tekur hér á móti verðlaununum.
Benedikt Erlingsson tekur hér á móti verðlaununum. Ljósmynd/ Johannes Jansson / norden.

Íslenska kvikmyndin Kona fer í stríð, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar, hlaut rétt í þessu Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs sem afhent voru í 15. skipti í Osló í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Benedikt skrifaði einnig handrit myndarinnar ásamt Ólafi Agli Egilssyni, en hún var heimsfrumsýnd á Critic's Week í Cannes fyrr á þessu ári. 

Þetta er í annað skiptið sem Benedikt hlýtur verðlaunin fyrir bæði leikstjórn og handrit, en það er einungis hinn danski Thomas Vinterberg sem getur státað af slíkum árangri. Benedikt hlaut verðlaunin árið 2015 fyrir kvikmyndina Hross í oss. Þá hlaut Dagur Kári verðlaunin árið 2015 fyrir kvikmyndina Fúsi.

Benedikt er jafnframt einn af framleiðendum myndarinnar Kona fer í stríð, ásamt Marianne Slot og Carine Leblanc. Verðlaunaféð nemur 350 þúsund dönskum krónum sem skiptist jafnt milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda.

Halldóra Geirharðsdóttir fer með aðalhlutverk myndarinnar, sem segir frá hinni fimmtugu Höllu sem brennur fyrir umhverfismálum og hefur upp á sitt einsdæmi leynilegt stríð á hendur áliðnaði á Íslandi.

Rökstuðningur dómnefndarinnar fyrir valinu er eftirfarandi:

„Í KONA FER Í STRÍÐ er alvarlegum og brýnum vanda miðlað gegnum sterkan persónuleika sem gefst ekki upp. Halla, konan sem tekur lögin í sínar hendur til að vernda vistkerfi jarðarinnar, er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur sem sýnir afburðagóða og agaða frammistöðu. (...) Raunar má segja að Benedikt Erlingsson, sem leikstýrði myndinni og skrifaði einnig handrit ásamt Ólafi Egilssyni, sýni jafnmikla dirfsku og aðalpersóna myndarinnar. Dómnefndin kann vel að meta það sjálfsöryggi sem Benedikt sýnir þegar hann fléttar sérstöku andrúmslofti framandgervingar inn í spennuþrungin atriði og innileg augnablik með því að hafa lifandi tónlistarflutning í mynd og láta hljóðfæraleikarana túlka skap- og tilfinningasveiflur persónanna. Útkoman er frábær kvikmynd sem er leiftrandi skemmtileg í meðferð sinni á hápólitísku viðfangsefni, svo og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar. (...)“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert