Boða til mótmæla í kjölfar slyss

Mynd úr safni. Barnið var flutt á sjúkrahús í morgun, …
Mynd úr safni. Barnið var flutt á sjúkrahús í morgun, ekki alvarlega slasað. Eggert Jóhannesson

Eftir að umferðarslys varð á gatnamótum Hringbrautar og Meistaravalla í vesturbæ Reykjavíkur í dag hafa yfirvöld verið gagnrýnd harðlega fyrir lélegt aðgengi fyrir gangandi vegfarendur á staðnum. Foreldrar barns í Vesturbæjarskóla boða til mótmæla.

Það eru hjónin Ólöf Jakobsdóttir og Jóhannes Tryggvason sem hyggjast standa vakt við gönguljósin þar sem slysið varð og gæta þess að börn komist óhult leiðar sinnar í skólann. 

Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að slysið, sem varð í morgun er 13 ára barn varð fyrir bíl, hafi borið að sökum glæfralegs aksturslag. Engu að síður tjá íbúar Vesturbæjarins sig inni á Facebook-hóp sínum, um að ítrekað verði þeir varir við bíla sem fara yfir á rauðu ljósi við umrædd gatnamót.

Slysið varð á gangbraut þar sem ýta þarf á takka svo að gönguljósið verði grænt. Að sögn íbúa í hverfinu eru gönguljósin þó of oft virt að vettugi af ökumönnum.

„Eina sem dugar er að þrengja Hringbraut frá JL-húsinu að Suðurgötu og lækka hámarkshraða. Eða setja hana í stokk,“ segir Höskuldur Kári Schram fréttamaður í athugasemd og nokkrir taka undir.

Annar kveðst hafa rætt málið áður við lögreglu, sem að sögn á að hafa sagt að ekki væri raunhæft að hafa eftirlit þarna eða myndavélar. Fjöldi manna leggur þá til að gæsla verði höfð við gangbrautina á morgnana á meðan börn eru á leið í skóla. Það er t.d. gert á Neshaga við Mela- og Hagaskóla.

Að sögn Kristínar Soffíu Jónsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í athugasemd inni á hópnum er veghaldari á gatnamótunum Vegagerðin; hún segir jafnframt að ýmislegt hafi verið lagt til af hálfu borgarinnar til bóta á staðnum en „öllu neitað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert