Skekki samkeppnisstöðuna alvarlega

Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net á HM í Rússlandi í sumar.
Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net á HM í Rússlandi í sumar. mbl.is/Eggert

„Þetta er alvarleg skekking á samkeppnisstöðunni,“ segir Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri netmiðilsins Fótbolta.net, um drög að frumvarpi til laga um breytingar á fjölmiðlalögum, sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í gær.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum geta einkareknir fjölmiðlar fengið 25% af ritstjórnarkostnaði endurgreiddan frá ríkinu, en þó að hámarki 50 milljónir á ári til hvers umsækjanda, að því gefnu að fjölmiðillinn uppfylli tiltekin skilyrði.

Eitt þessara skilyrða er að umfjöllunarefni miðilsins skuli vera „fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi,“ en nánar er gerð grein fyrir skilyrðinu í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Þar segir að til þess að fjölmiðill uppfylli skilyrðið þurfi efni fjölmiðilsins að hafa „breiða skírskotun“ og að efnistök þurfi að vera fjölbreytt, „þannig að birt efni sé ekki nær eingöngu bundið við ákveðið afmarkað eða afmörkuð svið, svo sem menningu, trúmál, íþróttir, matreiðslu, lífstíl eða tísku.“

Þurfi að greiða 33% meira til að borga sömu laun

Hafliði segir í samtali við mbl.is að þetta útiloki Fótbolta.net frá fyrirhuguðum endurgreiðslum til fjölmiðla og að það skekki samkeppnisstöðu miðilsins, sem fjallar eingöngu um fótbolta, innlendan og erlendan og er í samkeppni við miðla á borð við Morgunblaðið og mbl.is, Vísi, DV og Fréttablaðið í umfjöllun um knattspyrnu.

„Við þurfum að leggja fram 33% meiri pening til þess að borga sömu laun og samkeppnismiðlar okkar,“ segir Hafliði, sem hyggst gera athugasemdir við frumvarpsdrög ráðherra og einnig óska eftir fundi með bæði ráðherra og þingflokkum stjórnmálaflokkanna, til þess að ræða málið.

Heilt yfir ósammála frumvarpinu

Hafliði segir að hann hafi búist við því að gætt yrði jafnræðis á milli fjölmiðla í frumvarpinu og að það hafi komi komið honum á óvart að sjá að frumvarpið nái ekki yfir miðla sem sérhæfa sig í umfjöllun um tiltekið efni.

Hann segist þó heilt yfir hafa verið á móti hugmyndinni um að ríkið endurgreiði fjölmiðlum hluta ritstjórnarkostnaðar.

„Mér finnst að ríkið eigi ekkert að vasast í illa reknum fjölmiðlum. Menn geta bara tekið ábyrgð á sínum rekstri sjálfir. Ég þarf ekki að fá þessa peninga, en ég þarf að fá þá ef að samkeppnisaðilar mínir fá þá,“ segir Hafliði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert