„Eins og ekkert plan sé í gangi“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sakaði ríkisstjórnina um að hafa …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sakaði ríkisstjórnina um að hafa engin almennileg plön til þess að varðveita íslenska hagsmuni í tengslum við Brexit. mbl.is/Eggert

„Ég átta mig ekki á því hvað háttvirtur þingmaður er að fara,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í svari sínu við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi í dag. Hafði Þorgerður sakað ríkisstjórnina um að hafa „ekkert almennilegt plan“ til þess að tryggja íslenska hagsmuni vegna Brexit.

„Hvernig er verið að gæta íslenskra hagsmuna? Hver er áætlunin og hvernig hefur verið rætt um það í ríkisstjórn ef af hörðu Brexit verður?“ spurði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, á Alþingi í dag og beindi spurningu sinni að forsætisráðherra.

Lýsti hún verulegum áhyggjum af því að líkur á svokölluðu hörðu Brexit, það er að segja útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings, hefðu aukist til muna.

„Ég get fullvissað hæstvirtan þingmann um að hæstvirtur utanríkisráðherra og utanríkisráðuneytið hefur unnið að því að við værum tilbúin með ólíkar sviðsmyndir til þess að tryggja öll réttindi og greiðar leiðir á milli Íslendinga og Breta enda miklir viðskiptahagsmunir undir,“ svaraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sagðist forsætisráðherra hafa átt góðan fund með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í haust þar sem þær hafi sammælst um að tryggja óbreytt réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi í kjölfar Brexit.

Einnig hafi verið samkomulag um óbreytt réttindi námsmanna landanna.

Fylgjast með

„Ég verð að segja eins og er að það er eins og ekkert plan sé í gangi. Brexit er líklega eftir sjö vikur. Ekkert almennilegt plan er í gangi. Fyrirspurnum okkar þingmanna frá Viðreisn, meðal annars um sjávarútvegsmálin, er ekki svarað. Hvorki dómsmálaráðherra né utanríkisráðherra svara neinu er tengist Brexit,“ sagði Þorgerður.

Katrín sagðist hins vegar ekki skilja hvert Þorgerður væri að fara með fullyrðingu sinni og að engin ástæða sé til þess að efast um samkomulag ríkisstjórna ríkjanna tveggja.

„Við Theresa May gáfum út sameiginlega yfirlýsingu um réttindi borgaranna sem birtist opinberlega. Háttvirtur þingmaður þarf ekkert að draga það í efa.“

Jafnframt sagði hún að það kunni að vera að ríkisstjórn Bretlands hafi ekkert plan og að það hafi áhrif á plön annarra sem flækir stöðuna.

„Ég held að háttvirtur þingmaður ætti að vita það, ef hún hefur fylgst með umræðunni í Bretlandi, að það er kannski meiri óvissa um hvert planið er þar,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert