Flöskum stolið úr gámum björgunarsveitar

Björgunarsveitin Ársæll safnar flöskum og dósum frá fólki í gáma …
Björgunarsveitin Ársæll safnar flöskum og dósum frá fólki í gáma á völdum stöðum. Þeir eru tæmdir af unglingadeild Ársæls við og við. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður nokkur varð í morgun var við að óprúttinn aðili var að stela dósum og flöskum úr gámi Björgunarsveitarinnar Ársæls við Grandagarð. Þjófurinn meinti hafði gert gat á gáminn með klippum og stóð í ströngu við að tína dósir úr gámnum og setja í eigin poka.

Maður þessi greindi frá þessu á lokaðri Facebook-síðu sinni. Þar sagðist hann hafa kallað á þjóf meintan og spurt hann út í erindi hans. Þjófurinn svaraði ekki fyrr en töluð var enska við hann og viðurkenndi hann þá að hann væri að stela.

Vilhjálmur Halldórsson, formaður Björgunarsveitarinnar Ársæls, segist í samtali við mbl.is ekki hafa fengið veður af málinu en kveðst þó kannast við þennan vanda. „Við höfum orðið vör við þetta af og til en ekki að unnar séu skemmdir á gámunum,“ segir hann.

Björgunarsveitin á tvo gáma af þessari gerð í Reykjavík, sem eru í laginu eins og flöskur. Þeir eru opnir í annan endann svo fólk geti gefið björgunarsveitinni flöskur og dósir til söfnunar. Þeir eru úr harðgeru vírefni, sem erfitt ætti að reynast að klippa í sundur, en þó hægt, sé viljinn fyrir hendi, og rétt verkfæri.

Vilhjálmur segir að það hafi þekkst að menn teygi sig ofan í gáminn og sæki flöskur í óleyfi en tíðni slíkra brota hafi ekki kallað á aðgerðir hingað til. Sé hins vegar verið að skemma gámana til þess að ræna flöskum, þurfi að grípa til aðgerða, segir Vilhjálmur.

Hann hafði ekki frétt af málinu þegar mbl.is sló á þráðinn hjá honum en segist ætla að ganga beint í að kanna, hvort unnar hafi verið skemmdir á gámum björgunarsveitarinnar.

Unglingadeild björgunarsveitarinnar sér um að tæma gámana og koma flöskunum og dósunum í endurvinnslu. „Við erum að safna þessu fyrir okkur, ekki aðra,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert