Ríkisstjórnin átti sig á alvarleika málsins

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mikið áfall og það er erfitt að horfast í augu við þá réttaróvissu sem þessi dómur veldur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem féll í morgun.

Ríkið var þá dæmt brotlegt í Lands­rétt­ar­mál­inu svo­kallaða og að dóm­ara­skip­un Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­málaráðherra í rétt­inn hafi brotið gegn mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um.

Þorgerður vildi ekki svara því beint hvort Viðreisn muni fara fram á afsögn dómsmálaráðherra og sagði að afstaða flokksins hafi komið greinilega fram þegar kosið var með tillögu um vantraust í hennar garð á síðasta ári.

„Stóra verkefnið núna er að eyða þessari réttaróvissu. Dómsmálaráðherra er kannski ekki rétta manneskjan til þess að leiða þá vinnu. Þar sem mér finnst þunginn eiga að vera í núna er að farið verði þvert á alla stjórnmálaflokka, við verðum að vinna öll saman að því að koma því þannig fyrir að þetta mikilvæga millidómstig verði komið í lag aftur,“ segir Þorgerður.

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherra festir sig í einhverju orðalagi

Sigríður Andersen tjáði sig við fjölmiðla upp úr hádegi og sagðist ekki ætla að segja af sér vegna málsins.

„Mér fannst miður að heyra í dómsmálaráðherra áðan. Hún var að festa sig í einhverju orðalagi í staðinn fyrir að sýna auðmýkt. Málið er grafalvarlegt, það verða allir að átta sig á því. Ekki síst dómsmálaráðherra og ríkisstjórn landsins,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún segir að málið setji ljótan blett á það gríðarlega mikilvæga skref sem tekið var þegar Landsrétti var komið á fót.

„Þetta er ein mesta réttarbót síðari ára og gríðarlega merkilegt skref sem var tekið. Þess vegna þarf að kippa því í liðinn hið fyrsta. Það liggur ljóst fyrir að núverandi dómsmálaráðherra getur ekki gert það. Ég held það þjóni engum tilgangi að fara nú að kalla á torgum, heldur þurfa almannahagsmunir að verða settir framar sérhagsmunum og það verða allir flokkar að taka þátt í því verkefni,“ segir Þorgerður Katrín.

Hvað segir hún um næstu skref?

„Ég hef auðvitað ákveðnar pólitískar skoðanir á þessu, en mér finnst að forgangsverkefnið núna sé dómsstigið okkar og dómstóllinn sem ég vil gjarnan beita mér fyrir því að haldið verði sérstaklega vel um. Við verðum að bregðast hratt við hér á þinginu og verðum að heyra strax hvaða möguleika við höfum,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert