Missi ekki trú á markaðsöflunum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við Stjórnarráðið í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við Stjórnarráðið í dag. mbl.is/​Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það matsatriði hverju sinni hvenær ríkið skuli grípa inn í þegar fyrirtæki eigi í rekstrarerfiðleikum, en hann var gestur Kastljóss á RÚV í kvöld. Bjarni sagði eftirlitsstjórnvöld hafa staðið sína plikt og unnið sína vinnu vel. Þá sagði hann mikilvægt að missa ekki trú á markaðsöflunum þegar rekstrarerfiðleikar sem þessir geri vart við sig. Einnig sagði hann viðnámsþrótt í efnahagskerfinu og ríkisfjármálunum slíkan að takast mætti á við áföll sem þessi án þess að safna þurfi skuldum. 

Spurður hver ábyrgð stjórnvalda væri í tengslum við fall WOW air og hvort hægt hefði verið að grípa fyrr inn í sagðist Bjarni vera þeirrar skoðunar að menn hefðu unnið sína vinnu vel. 

„Samgöngustofa hefur fylgst mjög náið með rekstri félagsins alveg frá því fyrstu merki voru um að þar væri fjármögnunarvandi. Ég er þeirrar skoðunar sömuleiðis að stjórnvöld eigi ekki að vera þeir fyrstu sem missa trúna. Menn verða að leyfa markaðnum að reyna að bjarga sér. Þegar menn eru með áætlanir um að sækja nýtt fjármagn, þá verður að gefa því færi á að ganga upp,“ sagði hann. „Það er hins vegar alltaf matsatriði hversu lengi menn eiga að bíða,“ bætti hann við.

Flugvélaleigjendur fyrstir að missa þolinmæðina

Bjarni var einnig spurður út áhrif í kyrrsetningar leiguflugvéla WOW air, annars vegar kyrrsetningu flugvélar á Keflavíkurflugvelli til tryggingar skuldar við Isavia og tveggja flugvéla á erlendri grundu af hálfu leigusala.

„Eins og ég hef skilið þessa atburðarás þá voru það flugvélaleigjendur félagsins sem fyrstir kyrrsettu vélar. Þeir misstu fyrst þolinmæðina. Það kann að hafa verið að þeir hafi verið hræddir að senda vélarnar til Íslands af ótta við að þær yrðu kyrrsettar þar af Isavia. En hver er sökudólgurinn í því? Er það ekki skuldarinn? Ég hefði nú haldið það, að hann hafi komið sér í þá stöðu að menn hafi verið hræddir að senda vélar til Íslands. Þetta eru samt of miklar getgátur til að ég geti fullyrt of mikið um þetta,“ sagði hann.

Tilraunir til handstýringar varhugaverðar

Bjarni var spurður út í fjárfestingar í ferðaþjónustu og hvort það væri umhugsunarefni að WOW air hafi getað keyrt upp fjárfestingu í undirstöðuatvinnugrein landsins þegar staða félagsins hafi verið jafn veik og raun bar vitni.

„Félagið var auðvitað rekið með hagnaði á sínum tíma. Það komu góð ár og slæm ár. Ég held að allar tilraunir til að handstýra þessu geti reynst varhugaverðar. Það eru tugir flugfélaga að senda ferðamenn til Íslands. Það má segja að hliðið inn í landið sé Keflavíkurflugvöllur. Við gætum reynt að takmarka framboðið af lendingartímum til að stjórna þessu, en að stjórna því í tilviki hvers og eins félags held ég að sé útilokað,“ sagði hann og nefndi að hér væri markaðurinn að störfum.

„Við tókum því fagnandi þegar vel gekk og ég held að við eigum ekki að efast um markaðsöflin þegar rekstrarerfiðleikar eins og þessir birtast okkur. Það er engin leið önnur en að láta framboð og eftirspurn ráða þessum hlutum og ég er viss um að þó að þetta sé mikið áfall fyrir okkur í dag og erfiðleikar til skamms tíma víða, [...], þá held ég að til lengri tíma muni þetta jafna sig og Ísland verði áfram jafn eftirsóknarverður áfangastaður og áður,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert