Fjórtán segja upp hjá Play

Fjórtán flugmenn PLAY hafa sagt upp.
Fjórtán flugmenn PLAY hafa sagt upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mikill skortur á flugmönnum ríkir nú í heiminum og mikil samkeppni er um hæft fólk á meðal flugfélaga. Fyrr í sumar varð ljóst að þessi samkeppni væri að verða til þess að laun þeirra færu hækkandi og erfitt yrði að ráða og að halda flugmönnum. Því hófst vinna innan Play við að endurskoða ýmis atriði í launum og starfskjörum flugmanna félagsins,“ segir í fréttatilkynningu frá flugfélaginu Play.

Síðustu daga hafi fréttir borist af því að einn stærsti samkeppnisaðili félagsins hafi haft samband við flugmenn félagsins til að bjóða þeim störf og að þeim hafi verið settir þeir afarkostir að ákveða sig hratt og segja upp störfum nær samdægurs.

Óskað velfarnaðar

„Play hefur ekki upplýsingar um við hversu marga var haft samband eða í hverju tilboðið fólst enda er venjan að trúnaður gildi um slíkt á milli aðila. Hins vegar er hægt að upplýsa að félaginu bárust 14 uppsagnir í gær frá flugmönnum. Það er alltaf vont að sjá á eftir góðum liðsmönnum en þó munu þessar breytingar ekki hafa nein afgerandi áhrif á rekstur eða flugáætlun félagsins. Þessum starfsmönnum er óskað velfarnaðar og þakkað fyrir góð störf og þeirra framlag til félagsins,“ segir svo.

Þá er grein gerð fyrir því að framsetning launa og kjör flugfólks séu mun flóknari og breytilegri en flestra annarra starfstétta svo erfitt sé að leggja fram einfalda skýringu á þessari breytingu kjara enda snúist málið einnig um ýmis önnur atriði. Í fréttum síðustu daga hafi þó verið nefnd dæmi um áhrif þessara breytinga á kostnaðargrunn félagsins sem eru víðs fjarri raunveruleikanum þótt vissulega sé um umtalsverða hækkun að ræða fyrir þá starfsmenn sem um ræðir.

Áhrifin munu koma í ljós

„Áhrifin á reksturinn munu koma í ljós í uppgjörum félagsins sem kynnt eru almenningi en þó er hægt að segja að umrædd breyting hefur óveruleg áhrif á einingakostnað félagsins. 

Vert er að taka fram að Play hefur á síðustu misserum oft hækkað laun og bætt kjör starfsfólks síns, flugfólks sem og annarra starfsmanna, enda hefur félagið á að skipa einvala liði sem hefur staðið sig gríðarlega vel í sínum störfum og á allar þakkir skyldar.“

Einnig megi vera ljóst að félagið gæti ekki hafa haldið öllu þessu góða fólk í vinnu hingað til ef kjör þess væru eins mikið úr takti við önnur flugfélög og stundum er fleygt fram. Play sé stolt af því að hafa skapað um 550 ný störf á íslenskum vinnumarkaði á ríflega tveimur árum og telji að það hafi komið samfélaginu öllu til góða að viðbættu framlagi félagsins í að endurreisa straum ferðamanna til landsins og lækka ferðakostnað Íslendinga.

„Play ætlar, hér eftir sem hingað til, að bjóða öllu sínu starfsfólki samkeppnishæf kjör sem tryggja að félagið muni hafa hæft og gott fólk sem vill taka þátt í því að byggja upp frábært fyrirtæki sem við getum öll verið stolt af,“ segir að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK