Lífskjarasamningurinn samþykktur

Björn Snæbjörnsson, formaður SGS.
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill meirihluti þeirra félagsmanna Starfsgreinasambandsins sem greiddi atkvæði um lífskjarasamninginn svonefnda, kjarasamninginn sem aðildarfélög SGS, VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna sömdu um á dögunum við Samtök atvinnulífsins, samþykkti samninginn í atkvæðagreiðslu sem stóð yfir undanfarna daga.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá SGS að lífskjarasamningurinn hafi verið samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þannig sögðu rúm 80% já en nei 17,3%. Á kjörskrá voru 36.835 en kjörsókn var 12,78%. Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 12. til 23. apríl. Atkvæðagreiðslan náði til 19 aðildarfélaga SGS og samþykktu flest félögin samninginn með á bilinu 69-89,6%. Kjörsókn innan einstakra félaga var á bilinu 5,14-28,7%.

Vænta má niðurstaðna úr atkvæðagreiðslu innan VR um lífskjarasamninginn eftir um klukkutíma samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert