„Laga ásýnd Alþingis, ekki Alþingi“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði auglóst að stefnt væri að …
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði auglóst að stefnt væri að því að laga ásýnd Alþingis og verja valdið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á undanförnum mánuðum hafa hneyksli og áfellisdómar dunið á Alþingi hver á eftir öðrum. Akstursgreiðslumálið, Klaustursmálið, óviðeigandi hegðun þingmanna og óviðeigandi pólitísk afskipti af siðareglumálum,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Þá ræddi hún sérstaklega traust til lýðræðislegra stofnanna sem hefur verið fallandi og að traust á stjórnmálum hafi ekki aukist þrátt fyrir aukið gagnsæi og meira upplýsingaflæði.

„Getur verið að gagnsæið dragi úr trausti á stjórnmálunum, eða hefur það einfaldlega svipt hulunni af djúpstæðum og langvarandi vandamálum sem stjórnvöld neita að horfast í augu við?“ spurði Halldóra.

Þá gerði hún Klaustursmálið að sérstöku umfjöllunarefni og sagði að ekkert hafi orðið úr ákalli um að þingmenn sem urðu uppvísir að óviðeigandi hegðun segðu af sér. Þá hafi heldur verið sótt hart að þeirri konu sem kom upp um þá og hún úrskurðuð fyrir broti á persónuverndarlögum.

„Að sama skapi hefur þingkonan sem upplýsti um mikilvægi þess að hefja rannsókn í akstursgreiðslumálinu, verið úrskurðuð brotleg á siðareglum fyrir það eitt að benda á að forsendur séu fyrir því að rannsaka málið,“ sagði Halldóra.

Þingmaðurinn sagði áhersluna augljósa. „Það á að laga ásýnd Alþingis, frekar en að laga Alþingi.“ Jafnframt væri markmiðið að verja valdið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert