Sprenging í komu ferðamanna útskýrð

Ánægðir ferðamenn á Þingvöllum.
Ánægðir ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi

Innslag bresku Youtube-rásarinnar Wendover Productions um sprenginguna sem hefur orðið í íslenskum ferðamannaiðnaði á undanförnum árum hefur verið skoðað um 365 þúsund sinnum síðan það var birt í gær.

Í byrjun myndskeiðsins, sem er fimmtán mínútna langt, kemur fram að fyrir fimmtíu árum Ísland hafi verið peð á alþjóðavísu og landið haft úr litlum peningum að moða. Fiskveiðar sköpuðu mestar tekjur.

Erlendir ferðamenn á Íslandi.
Erlendir ferðamenn á Íslandi. mbl.is/Eggert

Eftir einkavæðingu ríkisfyrirtækja á tíunda áratugnum hafi hlutirnir tekið að vænkast og smám saman hafi Ísland orðið fjármálaveldi, eða þangað til bankarnir hrundu í alþjóðlegu fjármálakreppunni.

Fram kemur að árið 2005 fóru um 2 milljónir flugfarþega í gegnum Keflavíkurflugvöll á meðan aðeins um 370 þúsund manns heimsóttu landið sjálft. 

Við bankahrunið féll íslenska krónan og þá voru réttu aðstæðurnar fyrir hendi til fjölgunar erlendra ferðamanna. Þegar Eyjafjallajökull gaus svo árið 2010 fékk Ísland mikla ókeypis auglýsingu, auk þess sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu komst í fyrsta sinn á EM sem vakti mikla athygli.

Ísland varð eftirsóttasti áfangastaður heims á öðrum áratug þessarar aldar, ný hótel opnuðu í hverjum mánuði og WOW air kom fram á sjónarsviðið.

Fram kemur að ferðamanniðnaður snúist um þjónustu og lág laun séu greidd fyrir slík störf. Núna sinni hér á landi útlendingar 32% starfa í ferðamálaiðnaðinum og 37% starfsfólks á íslenskum hótelum séu Pólverjar en aðeins um 24% Íslendingar.

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli.
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Í myndskeiðinu er rætt um að mikill munur sé á komu fólks til Íslands eftir árstíðum og það skapi vandamál. Einnig er nefnt að vegna mikils fjölda ferðamanna þurfi að byggja upp innviði og passa upp á náttúruna. Hætta er á að Ísland líti út eins og skemmtigarður með auknum fjölda vega, bílastæða og fólks. Reglugerðir og innviðir hafi ekki náð að halda í við aukinn ferðamannafjölda.

Bent er á að heimsóknum erlendra flugfarþega til Íslands fækkaði um 26% í apríl miðað við á sama tíma í fyrra. Þulurinn segir „hina óstöðvandi sprengingu í komu ferðamanna“ vera að stöðvast og veltir fyrir sér ástæðunum. Kannski er landið orðið of dýrt og kannski er það ekki lengur í tísku. Ekki er hægt að skrifa alla niðursveifluna á fall WOW air.

Fyrir vikið fær Ísland tíma til að bæta innviði sína enn frekar og undirbúa sig betur fyrir komandi ár. Kannski er þetta þegar allt kemur til alls upphafið á byltingu númer þrjú, segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert