„Leti er það hættulegasta sem til er“

Stefán Þorleifsson, 102 ára kylfingur, var á meðal keppenda á …
Stefán Þorleifsson, 102 ára kylfingur, var á meðal keppenda á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem fram fór í Neskaupstað um helgina. Hann segir mót líkt og þetta hvetja fólk til að halda þreki, stunda útivist og gera æfingar til að vinna gegn öldrun. Ljósmynd/UMFÍ

Stefáni Þorleifssyni, 102 ára kylfingi, var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti á golfvöllinn á Neskaupstað í morgun þar sem hann keppti í pútti á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem fram fór í bænum um helgina.

„Það er frábært þegar fólk fær tækifæri til að keppa við jafningja sína. Það skiptir máli fyrir fólk sem er komið á þennan aldur. En svo hvetur svona mót fólk til að halda þreki, stunda útivist og gera æfingar til að vinna gegn öldrun,“ segir Stefán. Alls tóku um 300 manns þátt á mótinu og er Stefán sá elsti en hann fagnar 103 ára afmæli í ágúst.

Stefán segir mikilvægt að fólk yfir miðjum aldri og eldri borgarar stundi íþróttir. „Það gildir eins með eldri borgara og aðra sem vilja halda góðri heilsu, að hafa vit á því að hreyfa sig. Það er hættulegt að liggja alltaf og hvíla sig í ellinni. Þvert á móti. Hreyfing er besta meðalið,“ segir hann.

Stefáni var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti …
Stefáni var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti á golfvöllin á Neskaupstað í morgun þar sem hann keppti í pútti. Ljósmynd/UMFÍ

Hefur aðeins einu sinni orðið drukkinn

Stefán þakkar það foreldrum sínum og genunum hvað hann hefur náð háum aldri auk heilsusamlegs lífernis.

„Ég þekki marga sem hafa drepið sig á reykingum. En ég hef aldrei reykt. Síðan hef ég aðeins einu sinni orðið drukkinn. Það gerðist þegar ég var tvítugur og lofaði að gera það aldrei aftur. Ég hef staðið við það,“ segir Stefán en bætir við að það skipti líka sköpum að eiga góðan maka, góð börn og búa í samfélagi sem hlúi að öðrum.

„Það skiptir máli að búa í samfélagi þar sem enginn er skilinn út undan, gætt að því hvernig fólki líður og að það sé heilbrigt.“

Stefán var íþróttakennari og einbeitti sér að íþróttum aldraðra eftir að hann komst á aldur. Á efri árum hefur hann stundað skíði og sund af kappi en nú á golfið hug hans allan. Golfáhuginn er þó alls ekki nýr af nálinni en hann er einn af stofnfélögum Golfklúbbs Norðfjarðar.

Stefán er án efa elsti kylfingur landsins og var hann í skemmtilegu viðtali á golf.is í tilefni af 100 ára afmælinu fyrir tæpum þremur árum þar sem hann sagði meðal annars að keppnisskapið væri enn til staðar. 

Hann gerir æfingar á hverjum degi og telur það skipta höfuðmáli að fólk hafi vit á því að hreyfa sig og ætlar ekki að hætta því í bráð. „Leti er það hættulegasta sem til er,“ segir Stefán.

Keppnisskapið er enn til staðar hjá Stefáni.
Keppnisskapið er enn til staðar hjá Stefáni. Ljósmynd/golf.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert