„Eitt stærsta vandamálið innan flokksins“

Halldór Auðar segir að þau innan flokksins sem vildu hafa …
Halldór Auðar segir að þau innan flokksins sem vildu hafa agaðra fyrirkomulag á hlutunum hafi verið skömmuð fyrir „leyndarhyggju“ af því að þau vildu að framkvæmdaráðið fengi „lágmarksvinnufrið á fundum sínum.“ mbl.is/Eggert

„Hinn svokallaði flati strúktúr verður að byggjast á einhvers konar strúktúr, og tilgangurinn með slíkum strúktúr á meðal annars að vera að gefa fólki sem vinnur fyrir flokkinn lágmarks vinnufrið í formi fyrirsjáanlegra ferla. Annars vinna bara þeir frekustu hverju sinni og frekju er mætt með enn meiri frekju þar til allt sýður upp úr.“

Þetta segir Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar tekur hann undir þá gagnrýni sem Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður flokksins setti fram á þennan flata strúktúr flokksins í viðtali við mbl.is fyrr í dag. Halldór Auðar segir flata strúktúrinn vera „eitt stærsta vandamálið innan flokksins.“

Undir það taka fleiri, í athugasemdum við færslu hans, þeirra á meðal Sindri Viborg og Rannveig Tenchi, sem bæði hafa sagt hætt að starfa fyrir flokkinn.

Hann segist hafa rekið sig á það, er hann kom inn í framkvæmdaráð flokksins, að þar hafi verið algjört skipulagsleysi á fundum með tilheyrandi óvissu um „hvað væri að fara að gerast á þeim, hverjir væru að fara að mæta ótilkynntir sem gestir, hvað þeim gekk til og hver mörkin voru milli gesta og þeirra sem kjörnir voru til að sitja í framkvæmdaráði.“

„Mér fannst alveg nógu flókið að henda reiður á öllum sem sátu í framkvæmdaráði og voru til þess lýðræðislega kjörnir, þó ekki bættust þar ofan á allir aðrir flokksmenn sem höfðu áhuga á afskiptum af störfum þess. Þetta fannst mér ekki vera flatur strúktúr heldur einfaldlega algjört strúktúrleysi sem bauð upp á 'gengjastríð' milli fylkinga eftir fullkomlega ófyrirsjáanlegum reglum. Ég taldi þetta ekki gott fyrirkomulag fyrir neinn og síst af öllu fyrir geðheilsu þeirra sjálfboðaliða sem var ætlað að sitja í framkvæmdaráði og höfðu til þess lýðræðislegt umboð,“ skrifar Halldór Auðar, sem hefur ekki verið virkur í starfi Pírata um nokkurt skeið.

Hann segir að þau innan flokksins sem vildu hafa agaðra fyrirkomulag á hlutunum hafi verið skömmuð fyrir „leyndarhyggju“ af því að þau vildu að framkvæmdaráðið fengi „lágmarksvinnufrið á fundum sínum.“

„Algjörlega opnir fundir alltaf voru víst hið eina sanna Píratafyrirkomulag, eða það var allavega mín upplifun af stemningunni - og í stað þess að halda áfram að slást við það sjónarmið ákvað ég að víkja. Kannski kom ég gagnrýni minni ekki rétt á framfæri og kannski var tíminn til að ræða þessi mál ekki réttur en niðurstaðan var allavega að mér þótti réttast að draga mig frá þessu öllu saman. Það er raunar ein besta ákvörðun sem ég hef tekið, enda hafði ég mjög gott af því að taka mér algjört frí frá flokkspólitísku starfi hvort eð er,“ skrifar Halldór Auðar í færslu sinni, sem má lesa hér að neðan.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert