Leið eins og fertugum karli

Sigurður Sævar Magnúsarson.
Sigurður Sævar Magnúsarson. mbl.is/RAX

Sigurður Sævar Magnúsarson tók á móti blaðamanni í íbúð sinni í austurbæ Reykjavíkur, sem þjónar einnig sem vinnurými. Veggirnir eru þaktir málverkum, bæði eftir hann sjálfan og aðra listamenn á borð við Kristján Davíðsson, Karólínu Lárusdóttur, Sigurð Örlygsson, Hjalta Parelíus og Erró. Þrettán ára byrjaði Sigurður að safna málverkum og hefur haldið því áfram til dagsins í dag.

„Mér þykir mjög skemmtilegt að bjóða gestum hingað að skoða listaverkasafnið mitt. Þar sem ég er töluvert ungur kemur hingað mikið af ungu fólki sem er að kaupa sitt fyrsta listaverk,“ segir Sigurður. „Það er oft gaman að sýna þeim safnið þar sem það spannar svolítið íslenska myndlistarsögu,“ bætir hann við.

Sigurður er ekki óvanur því að sýna myndlist, sjálfur hélt hann sína fyrstu sýningu aðeins þrettán ára gamall og hefur haldið ófáar sýningar síðan.

Yngstur til að halda yfirlitssýningu

Í kringum fermingu leið mér svolítið eins og fertugum karli,“ segir Sigurður. „Mínar áherslur voru kannski svolítið öðruvísi en skólasystkina minna í Hagaskóla. Þegar þau vildu vera á böllum vildi ég fara á listaverkauppboð og þegar vinir mínir vildu spila tölvuleiki vildi ég skapa listaverk.“

Daginn eftir tuttugu ára afmælisdag sinn, hinn 16. september 2017, hélt Sigurður sýningu í Norðurljósasal Hörpu. „Þá voru tíu ár síðan ég ákvað að gerast myndlistarmaður tíu ára gamall svo ég ákvað að fagna með myndlistar- og tónlistarveislu,“ segir Sigurður. „Þar gat ég sýnt þróun í verkum mínum þessi fyrstu tíu ár. Þótt ég viti það ekki tel ég mig trúlega yngsta myndlistarmanninn á Íslandi sem hefur haldið yfirlitssýningu á verkum sínum,“ segir Sigurður og hlær.“

Samhliða afmælissýningunni opnaði Sigurður níu aðrar sýningar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið í sama mánuði. „Þetta var bæði fyrir áhangendur mína, sem fengu að sjá hvað ég hef verið að gera mín fyrstu ár, en þessar sýningar voru líka fyrir mig sjálfan. Ég vildi líta yfir sviðið og skoða hvert þetta ætti allt saman að halda,“ segir Sigurður.

„Fyrst og fremst sá ég afrakstur tíu ára vinnu. Ég hugsa auðvitað allt öðruvísi í dag en ég gerði þegar ég var ellefu eða tólf eða fjórtán ára gamall að mála mín fyrstu verk. Það var ágætt að sjá þróunina og sjá að þetta stefnir eitthvað,“ segir Sigurður, en í kjölfar sýningarinnar ákvað hann að hefja umsóknarferli um listnám í Evrópu.

Byggir brú til Evrópu

Sigurður fékk nýlega inngöngu í Konunglegu listaakademíuna í Haag í Hollandi, en af rúmlega 600 manns sem sóttu um var Sigurður einn þeirra 50 sem fengu skólavist.

„Þetta er ágætis viðurkenning á því sem ég er að gera,“ segir Sigurður. „Þetta er spennandi verkefni að takast á við, en fyrst og fremst er þetta einstakt tækifæri, að komast inn í svona skóla og fá að kynnast skapandi og hæfileikaríku fólki og mynda tengsl við það. Þetta verður kannski mín brú yfir á meginlandið. Ég er mjög spenntur að fá að móta mig og mínar hugmyndir í skapandi umhverfi á næstu árum.“

Nánar er rætt við Sigurð Sævar Magnúsarson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert