„Fólk sér greinilega tækifæri í norðrinu“

Ríkisstjórnin hélt blaðamannafund í Icelandair Hótel Mývatn eftir að hafa …
Ríkisstjórnin hélt blaðamannafund í Icelandair Hótel Mývatn eftir að hafa fundað með sveitatstjórnarmönnum. mbl.is/Birkir Fanndal

„Við áttum frábæran fund með sveitarstjórnarfólki hér á svæðinu. Mér fannst sérstaklega jákvætt að skynja þann mikla sóknarhug sem er á þessu svæði. Fólk sér greinilega tækifæri í norðrinu eins og ég kaus að orða það. Bæði hvað varðar ferðaþjónustu, nýsköpun, orku- og loftlagsmál. Þannig að það var mikill hugur í fólki.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is en ríkisstjórnin fundaði við Mývatn í morgun og fundaði síðan í kjölfarið með fulltrúum Eyþings, landshlutasamtaka sveitarfélaga á Norðausturlandi. Katrín segir að einnig hafi verið hefðbundnari mál verið rædd eins og innviðir, samgöngur og fleiri málefni.

Ríkisstjórnin á fundi sínum við Mývatn í morgun.
Ríkisstjórnin á fundi sínum við Mývatn í morgun. mbl.is/Birkir Fanndal

Ráðherrar munu síðan sitja vinnufund þar sem rætt verður meðal annars um þingveturinn framundan, jarðamál og vinnuna sem stendur yfir í þeim efnum og fleiri mál. Spurð hvort jarðamálin hafi verið rædd á fundinum með sveitarstjórnarmönnunum segir Katrín svo hafa vissulega verið en ekki aðeins um uppkaup á landi.

„Til dæmis var einnig rætt um jarðir sem eru í hálfgildings eyði, það er að segja þar sem er engin búseta. Þannig að þetta var rætt frá ólíkum sjónarhornum sem var mjög gagnlegt fyrir okkur,“ segir Katrín. Þannig hafi einnig verið rætt um það þegar jarðir dyttu úr nýtingu líkt og Bændasamtökin hafa einkum lýst áhyggjur af.

mbl.is/Birkir Fanndal

Verið er að kortleggja jarðakaupamálin að sögn Katrínar. Starfshópur var skipaður af forsætisráðherra með fulltrúum þeirra ráðuneyta sem hafa með málið gera og í kjölfar þeirrar vinnu hefur hún fengið sérfræðinga til þess að fara yfir það hvaða breytingar sé hægt að gera ef vilji er til þess að takmarka jarðakaup.

„Mín skoðun er sú að það sé mjög mikilvægt fyrir öll ríki að hafa skýra stefnu í þessum efnum. Við erum með mjög opið regluverk sem stendur og höfum verið um langt skeið. Ég tel að í ljósi þess að auðlindaréttur fylgja landi sé mikilvægt að ákveðnar breytingar verði gerðar í anda þess sem við sjáum hjá mörgum nágrannaríkjum okkar.“

mbl.is/Birkir Fanndal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert