Alþingi samþykki ákvæði um auðlindir

Katrín Jakobsdóttir á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir á Alþingi. mbl.is/​Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekkert nýtt hafa komið fram í máli andstæðinga innleiðingar þriðja orkupakkans á Alþingi í dag.

Hún segist hafa orðið undrandi þegar hún heyrði Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, spyrja utanríkisráðherra að því í morgun hvernig stæði á því að hann væri ekki kominn með ný gögn og nýjar upplýsingar.

„Ég taldi alveg fullljóst að það hefði legið fyrir hér frá upphafi að við teldum málið fullrætt og fullreifað en hins vegar vildum við gefa andstæðingum málsins færi á að koma fram með ný gögn,” sagði Katrín á Alþingi.

Hún nefndi að hvorki í meðförum utanríkismálanefndar né í umræðunni á Alþingi í dag hafi verið sýnt fram á nein ný gögn eða nýjar upplýsingar komið fram. Bætti hún við að fræðimenn hafi verið sammála sjálfum sér frá því í vor.

Ljúki afgeiðslu ákvæðis um auðlindir 

Katrín sagði sitt mat vera það að inntak þriðja orkupakkans gefi ekkert tilefni til þess að hafa neinar áhyggjur. Hún spurði sig því hvað valdi þeim áhyggjum sem hún og fólkið í kringum hana skynjar. Sagði hún fólk vera ósátt við að ekkert ákvæði sé í stjórnarskránni um sameign þjóðarinnar á auðlindum en yfir 80% þjóðarinnar vildu í þjóðaratkvæðagreiðslu fá slíkt ákvæði.

„Geta háttvirtir þingmenn kannski tekið sig saman um að þetta þing ljúki afgreiðslu slíks ákvæðis?” spurði hún vonaði að þar með gætu þingmenn sammælst um að koma til móts við þær áhyggjur sem eru að heyrast. „Þetta skiptir máli í því samhengi sem við erum að ræða hér.” Einnig kvaðst hún vonast til að þingmenn muni sammælast um að setja skýrari ramma um landakaup á Íslandi. Meðal annars mætti ræða hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi eigi að fylgja landréttindum. 

„Ég heyrði ekki andstæðinga þriðja orkupakkans hafa miklar áhyggjur af því að hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. En í hverju eru þessir fjárfestar að fjárfesta? Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni,” sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert