Kormákur og Skjöldur skrifuðu undir mótmæli

Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson skrifuðu báðir undir mótmælalista gegn …
Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson skrifuðu báðir undir mótmælalista gegn göngugötum í miðborginni. Kormákur og Gunnar Gunnarsson talsmaður Miðbæjarfélagsins eru þó ekki sammála um það undir hvaða kringumstæðum undirskriftirnar voru veittar. mbl.is/Eyþór Árnason

Kormákur Geirharðsson og Skjöldur Sigurjónsson, eigendur Herrafataverslunar og Ölstofu Kormáks & Skjaldar í miðborginni, skrifuðu báðir undir mótmælalista gegn því að lokað yrði fyrir bílaumferð á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti fyrir hönd beggja fyrirtækja sinna. Kormákur sagði í samtali við mbl.is í gær að það kæmi honum á óvart að heyra af því að fyrirtæki hans væri skráð á listann.

mbl.is hefur fengið umræddan lista í hendur og þar eru undirskriftir bæði Kormáks og Skjaldar. Er blaðamaður hafði aftur samband við Kormák vildi hann fá að fullvissa sig um að þetta væri í reynd hans eigin undirskrift – og niðurstaðan varð að svo er.

Kormáki og Gunnari Gunnarssyni, talsmanni Miðbæjarfélagsins sem stóð að undirskriftasöfnuninni, ber ekki saman um það undir hvaða kringumstæðum undirskriftirnar voru veittar.

„Hann er búinn að bögga okkur svo oft með einhverju svona og við höfum alltaf verið með þessa skoðun að við séum til í að það sé lokað stundum og opið stundum. Ég skil ekki að við höfum skrifað undir neitt, nema að hann hafi verið að grugga vatnið eitthvað og þá höfum við skrifað undir eitthvað,“ segir Kormákur.

Gunnar Gunnarsson talsmaður Miðbæjarfélagsins.
Gunnar Gunnarsson talsmaður Miðbæjarfélagsins.

Er hann var svo búinn að rýna í eigin undirskrift á listanum sagði hann að er hann hefði ritað nafn sitt á listann hefði hann verið að mótmæla því að Laugavegi yrði lokað alveg upp að Hlemmi og Skólavörðustíg alveg upp að Hallgrímskirkju.

„Að þetta yrði allt saman lokað alltaf. Ég er á móti því. Eins og þetta lítur út þarna þá er ég að meina það,“ segir Kormákur. Hann segist ósáttur við að nafn verslunarinnar hafi verið sett í auglýsingu frá hópi kaupmanna í miðborginni sem birtist í Morgunblaðinu í gær á grundvelli þessarar undirskriftar sem var veitt, án þess að talað hafi verið við hann fyrst.

Gunnar segir þó að hann hafi aldrei hitt þá Kormák né Skjöld til þess að safna undirskriftum þeirra fyrir þennan tiltekna lista, heldur hafi hann farið með óútfyllt undirskriftablað á ölstofu þeirra félaga og skilið það eftir í höndum rekstrarstjóra þar. Síðan hafi því verið sérstaklega komið til skila aftur löngu seinna, útfylltu.

Eru sjálfir með rekstur utan göngugatna

„Ég man ekki til þess að hafa talað um þetta mál við þá, hvorki við Kormák né Skjöld, hvorugan,“ segir Gunnar, sem einnig segist vilja benda Kormáki á að til standi að loka Laugaveginum alla leið upp að Hlemmi í áföngum. Kormákur sagði í gær að hann væri á móti því, en að honum lítist ágætlega á fyrsta áfanga áætlunarinnar, sem felur í sér að neðsti hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs verði gerðir að varanlegum göngugötum.

Ölstofa Kormáks & Skjaldar er við Vegamótastíg en herrafataverslunin á Laugavegi fyrir ofan það svæði sem gera á að göngugötu. Einnig hafa Kormákur & Skjöldur verið með kvenfataverslun, sem nú er orðin svokölluð „outlet“-búð, á efri hluta Skólavörðustígs.

Stefnt er að því að gera Laugaveg að göngugötu í …
Stefnt er að því að gera Laugaveg að göngugötu í áföngum á næstu árum. mbl.is/​Hari

„Honum fannst mjög sniðugt að loka neðri hluta Skólavörðustígsins, en hann er með verslun á opna partinum fyrir ofan. Honum fannst voða sniðugt að loka neðri hluta Laugavegarins, en er með verslun á opna partinum fyrir ofan. Þeirra verslunarrekstur hefur aldrei búið við það að vera við lokaða götu,“ segir Gunnar, sem bætir því við að þeir Kormákur og Skjöldur séu „fyrirmyndardrengir“ og að það sé leiðinlegt að þessi „misskilningur“ hafi komið upp með undirskriftalistann.

„Ég óska þeim alls hins besta með sinn verslunarrekstur, því að þeirra búð er einmitt verslun sem Laugavegurinn þarf á að halda,“ segir Gunnar.

Sjálfur er Gunnar ekki rekstrarmaður í miðborginni, heldur er hann einungis talsmaður þess hóps rekstraraðila sem tekur þátt í starfi Miðbæjarfélagsins og var fenginn til verksins þar sem hann þekkir marga kaupmenn í bænum.

Hættu að tala upp „skelfilegt“ ástand

Kormákur nefndi það í samtali við mbl.is í gær að Gunnar hljómaði eins og hann væri að vinna að hag verslunar í Kringlunni en ekki í miðbænum, umræðan um miðbæinn væri of neikvæð.

Gunnar gefur lítið fyrir þetta. Hann segir þann hóp kaupmanna sem stendur að Miðbæjarfélaginu hafa ákveðið fyrir um tveimur árum að „hætta að ljúga“ og tala upp ástand „sem í raun var skelfilegt eins og allt væri ægilega gott.“

„Við leysum engin vandamál með því að segja ósatt. Þetta er bara raunveruleikinn. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt minnsta vott af því að hlusta á rekstraraðila, taka tillit til þeirra eða eiga nokkuð samtal við þá. Menn segja bara: „Við erum búnir að fá nóg, við erum hættir að ljúga. Nú segjum við bara sannleikann.“ Hvort að það er eitthvað neikvætt, það er spurning, en maður lýgur ekki endalaust og ef þú ert að ljúga til þess að tala upp ástand sem er slæmt, þá koðnar undan rekstrinum þínum og lífsstarfi. Það er bara þannig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert