Kvíðavaldandi að þurfa samþykki fyrir þungunarrofi

Lög um þungunarrof sem samþykkt voru á Alþingi tryggðu konum …
Lög um þungunarrof sem samþykkt voru á Alþingi tryggðu konum loksins sjálfsákvörðunarrétt en áður þurftu þær samþykki tveggja heilbrigðisstarfsmanna fyrir þungunarrofi. Hér fallast konur í faðma á áhorfendapöllum Alþingis eftir að lögin voru samþykkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stóra breytingin er sú að nú er sjálfsákvörðunarréttur kvenna sem vilja eða þurfa að fara í þungunarrof virtur,“ segir Steinunn Rögnvaldsdóttir félags- og kynjafræðingur í samtali við mbl.is um ný lög um þungunarrof. 

„Þær þurfa því ekki að fá leyfi frá tveimur heilbrigðisstarfsmönnum eins og var ákvæði um í eldri lögunum.“ Steinunn er ein þeirra sem halda erindi á málstofunni Rétturinn til að eiga ekki börn: Móðurhlutverkið og þungunarrof og skoðar hún í erindi sínu bæði upplifun kvenna af og viðhorf löggjafans til sjálfsákvörðunarrétts kvenna. 

Lög sem kröfðust þess að konur rökstyddu ákvörðun um þungunarrof verða til umfjöllunar í málstofunni sem er ein af 50 málstofum Þjóðarspegilsins: Ráðstefnu í félagsvísindum í Háskóla Íslands á föstudag. Á málstofunni verða flutt 5 erindi sem öll snerta þungunarrof á einn eða annan hátt. Með lögum um þungunarrof sem samþykkt voru hinn 13. maí síðastliðinn var konum í fyrsta sinn tryggður sjálfsákvörðunarréttur til þungunarrofs en fyrri lög höfðu staðið frá árinu 1975.

Gátu ekki verið vissar um að fá leyfi

Steinunn segir að heilbrigðiskerfið hafi verið hliðhollt konum og því þungunarrof samþykkt í langflestum tilfellum á síðustu árum. „Það var ekkert endilega þannig í byrjun og þegar lögin voru samþykkt 1975 var stór hluti heilbrigðisstarfsfólks fastur á því að heilbrigðisstarfsfólk ætti að hafa eitthvað um þetta að segja,“ segir Steinunn en hún og Silja Bára Ómarsdóttir gáfu út bók um upplifun kvenna af þessu kerfi en frásögnum söfnuðu þær árin 2014 og 2015. Niðurstaðan var að kerfið var streitu- og kvíðavaldandi fyrir konurnar. „Þær gátu ekki verið vissar um að fá að fara í þungarrof.“

Steinunn segir að þó skilyrði fyrir leyfi til þungunarrofs hafi verið túlkuð vítt á síðustu árum þeirra var ekki víst að framhald yrði á því, því sé setning laganna mikilvæg. „Við höfum séð bakslag gagnvart kyn- og frjósemisréttindum kvenna víða í kringum okkur erlendis og það er ekkert sem segir að það bakslag hefði ekki náð á endanum til Íslands,“ segir hún en Gunnar Sigvaldsson mun fjalla um rannsókn sína á umræddu bakslagi í baráttu um frelsi til þungunarrofs í erindi sínu á málstofunni.

Áhorfendapallar Alþingis voru þétt setnir í maí þegar umræður um …
Áhorfendapallar Alþingis voru þétt setnir í maí þegar umræður um þungunarrofslögin fóru fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðhorfið hefur breyst

Í seinni hluta erindis síns ræðir Steinunn niðurstöður rannsóknar sinnar á orðræðu þingmanna við afgreiðslu þungunarrofslaganna á þingi í vor. „Þetta eru bráðabirgðaniðurstöður en það sem mér fannst áberandi var að mjög margir þingmenn sem voru með málinu tala um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Þar af leiðandi verður hann líka fyrirferðarmikill meðal þeirra sem hafa efasemdir um að samþykkja frumvarpið og enda svo með að gera það ekki,“ segir Steinunn. 

Hún segir breytingu hafa orðið í viðhorfi til sjálfsákvörðunarrétts kvenna. Árið 1975 voru margir sem börðust fyrir því að sjálfsákvörðunarrétturinn væri tryggður, raunar var gert ráð fyrir því í fyrstu útgáfu laganna. „Rauðsokkahreyfingin, ásamt öðrum, var mjög á móti því að þessi lög yrðu samþykkt í þeirri mynd sem þau voru síðan samþykkt vegna þess að ekki var gert ráð fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna,“ segir hún. Nú sé hins vegar umræðan önnur; sjálfsákvörðunarrétturinn kominn í almenna umræðu þó mörgum finnist hann ekki skipta mestu máli. Fríða Rós Valdimarsdóttir fer yfir umrædda baráttu Rauðsokkahreyfingarinnar og annarra í erindi sínu á málstofunni.

Málstofan fer fram á morgun í stofu 101 í Odda, einni af byggingum Háskóla Íslands, og er hluti af Þjóðarspeglinum eins og áður sagði. Hún hefst kl. 11 og er Silja Bára Ómarsdóttir málstofustjóri. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir eins og á aðrar málstofur Þjóðarspegilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert