Stolt af sögulegu framfararskrefi á Íslandi

Mikill fögnuður braust út á þingpöllum eftir samþykkt frumvarpsins.
Mikill fögnuður braust út á þingpöllum eftir samþykkt frumvarpsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ekki skrítið hvað umræðan um frumvarp ríkisstjórnarinnar um þungunarrof, sem samþykkt var á Alþingi í gær, einkenndist af miklum tilfinningum. Hins vegar tóku sumir þingmenn ekki nægilegt tillit til kvenna sem takast á við erfiðar ákvarðanir.

Þetta segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, í samtali við mbl.is í dag. Frum­varpið hlaut stuðning 40 þing­manna gegn 18 sem greiddu atkvæði og segir Halldóra að fögnuðurinn sem braust út á þingpöllum eftir að úrslitin lágu fyrir segi sína sögu.

„Það var ótrúlega fallegt að sjá þegar fólk stóð upp og klappaði á þingpöllunum. Þetta var sögulegt augnablik og ég er mjög stolt að hafa fengið að taka þátt í því,“ segir Halldóra, en hún á ekki von á því að málið hafi áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið þótt þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið klofinn í atkvæðagreiðslunni.

„Nei, það held ég ekki. Þetta er mál sem ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma með þeim fyrirvara að ekki yrðu allir sammála. Það var því alltaf vitað að það yrðu þingmenn innan Sjálfstæðisflokksins sem styddu ekki þetta mál.“

Sumir þingmenn ótillitssamir

Frumvarpið vakti gríðarleg viðbrögð, bæði á meðal þingmanna og í þjóðfélaginu. Hvað fannst Halldóru um umræðuna sem oft var hávær og sérstaklega eftir því sem nær dró atkvæðagreiðslu?

„Hún hefur einkennst af miklum tilfinningum, sem er ekkert skrítið þar sem margir hafa sterkar tilfinningar til þessa máls. En mér finnst verst hvað mörg ummælin frá fólki voru ljót,“ segir Halldóra en helst var tekist á um fjórðu grein frumvarpsins sem gefur heimild til að rjúfa þungun til loka 22. viku.

„Fólk er svo mikið á móti því, en það er svo lítill hópur sem um ræðir. Það eru konur sem eru í ofboðslega viðkvæmri og erfiðri stöðu og eru að taka ofboðslega erfiðar ákvarðanir. Mér finnst sumir þingmenn ekki alveg hafa tekið tillit til þess í sinni orðræðu,“ segir Halldóra.

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Klár merki um framför hér heima

Aðspurð segist hún ekki hafa fengið viðbrögð erlendis frá, en þetta málefni er ekki síður til umræðu annars staðar. Meðal annars á að þrengja löggjöfina í Grikklandi og í sumum ríkjum Bandaríkjanna.

„Það er rosalegt hvernig þetta er að þróast úti í heimi. En svo eru sum lönd sem eru með enn rýmri rétt, til dæmis í Kanada og í Bretlandi. Þetta er því misjafnt, en mér finnst þetta klárlega vera merki um framför hér heima,“ segir Halldóra, en fyrri lög um málið voru sett árið 1975.

„Mér finnst merkilegt að þegar lögin voru sett 1975 voru þrjár konur á þingi. Við erum aðeins fleiri í dag og heilbrigðisráðherra er kona, svo mögulega er það ástæðan fyrir því að við náum þessu í gegn núna,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert