Frumvarp um þungunarrof samþykkt

Fagnað var á þingpöllum eftir að frumvarpið var samþykkt.
Fagnað var á þingpöllum eftir að frumvarpið var samþykkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um þungunarrof var samþykkt á Alþingi rétt í þessu og fylgdu mikil fagnaðarlæti af þingpöllum. Frumvarpið hlaut stuðning 40 þingmanna gegn 18, þrír greiddu ekki atkvæði. Þá voru tveir fjarverandi.

Tekist var hart á undir atkvæðagreiðslunni og tóku fjölmargir til máls til þess að gera grein fyrir atkvæði sínu. Vakti athygli að Sjálfstæðisflokkurinn var klofinn í málinu, en hinir ríkisstjórnarflokkarnir studdu málið.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Var ýmist tekist á um hvort málið hafi hlotið nægilega umræðu í velferðarnefnd og um einstök ákvæði frumvarpsins, sérstaklega hvað varðar heimild til þungunarrofs að 22. viku meðgöngu.

Þá var breytingartillaga Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að þungunarrof yrði takmarkað við 20. viku felld.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði málið ekki hafa borið skyndilega að heldur hafi vinna að frumvarpinu verið í gangi í lengri tíma fyrst í ráðherratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar og síðar Óttars Proppé. Sagðist hún treysta konum fyrir sjálfsákvörðunarrétti sínum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðisflokkur ekki einhuga

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þungunarrof á 22. viku vera eitthvað sem er til þess fallið að veita konum úrræði í undantekningartilfellum og væri ekki léttvægur valkostur.

Sigríður Andersen, flokkssystir Bryndísar, nefndi hins vegar að engin sem hafi lýst áhyggjum í málinu hafi verið mótfallin sjálfsákvörðunarrétti kvenna. Taldi hún frekar að mikilvægt væri að umræðan yrði meiri til þess að tryggja víðtækari sátt.

Frá þingpöllum Alþingis á meðan á umræðunni stóð.
Frá þingpöllum Alþingis á meðan á umræðunni stóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði að hann hafi talið að meiri tíma hefði þurft til þess að ræða málið betur og að mörg álitamál hafi ekki verið full rædd. Hann sagði kvenfrelsi mikilvægt, en að „Kvenfrelsi geti ekki trompað hvert einasta annað álitamál sem kemur upp í þessum efnum.“ Sagði hann nefndarálitið léttvægt miðað við umfang málsins.

Ritari sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var þó ósammála formanninum og sagði málið snúa að rétt konunnar og að hún myndi standa með þeim rétti kvenna. Þá kvaðst Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, einnig styðja frumvarpið, hins vegar væri mikilvægt að í málum sem þessum yrði að virða skoðanir annarra.

„Ekki það erfiðasta sem ég hef gert“

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, sagði ríkisstjórnina augljóslega sýna að hún væri ófær um að ná sáttum um málið.

Málið hefur verið erfitt fyrir alla sem komu að því hjá velferðarnefnd þingsins, að sögn Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata og formanns velferðarnefndar. Sagði hún það vera erfið og afdrífarík ákvörðun að fara í þungunarrof og að það væri vonbrigði að rætt væri um þær sem illmenni. Fagnaði hún frumvarpinu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Hari

„Þetta er ekki það erfiðasta sem ég hef gert því ég treysti konum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, um það að greiða frumvarpinu atkvæði sitt. Benti Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á að um væri ekki að ræða lengri heimild til þungunarrofs heldur hvort konur taki ákvörðun um það eða heilbrigðisstarfsfólk.

Halldóra Mogensen
Halldóra Mogensen mbl.is/Kristinn Magnússon
Frá atkvæðagreiðslunni.
Frá atkvæðagreiðslunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina