Banna þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída. AFP/Chris duMond/Getty Images

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, undirritaði lög í gær sem banna nánast allt þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu. 

„Við erum stolt af því að styðja við réttin til lífs og fjölskylduna í Flórída-ríki,“ sagði í yfirlýsingu DeSantis. 

Ef fóstur er ekki á lífi, heilsa móður er í hættu eða ef um nauðgun, mansal eða sifjaspell er að ræða hafa konur kost á þungunarrofi en einungis ef meðgangan er komin styttra en 15 vikur á leið. 

Annað sinn á innan við ári

Hvíta húsið fordæmdi lögin og sagði þau skerða grundvallarréttindi Bandaríkjamanna. 

„Bannið kemur í veg fyrir að um fjórar milljónir kvenna í Flórída sem eru á barneignaaldri hafi kost á þungunarrofi eftir sex vikur, áður en margar konur vita að þær eru ófrískar,“ sagði í yfirlýsingu Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins. 

Frumvarpið var samþykkt með 70 atkvæðum gegn 40 í neðri deild ríkisþings Flórída.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem þingið skerðir rétt kvenna til þungunarrofs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert