Fyrsta ríkið sem bannar þungunarrofslyf

Lyfið mifepristone.
Lyfið mifepristone. AFP/Elisa Wells

Wyoming varð í gær fyrsta bandaríska ríkið til að banna notkun þungunarrofslyfja.

Eftir að hafa undirritað lög þess efnis hvatti Mark Gordon, ríkisstjóri Wyoming, þingmenn til að ganga enn lengra og leggja til að þungunarrof verði með öllu bannað í stjórnarskrá ríkisins og að almenningur greiði í framhaldinu atkvæði um málið.

„Ég tel að þetta þurfi að ákveða eins fljótt og auðið er svo að málefni þungunarrofs í Wyoming verði loksins leyst og best væri að láta fólk kjósa um þetta,“ sagði repúblikaninn í yfirlýsingu.

Þeir sem gerast brotlegir við lögin eiga yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsi og 1,2 milljóna króna sekt.

Eftir tímamótadóm Hæstaréttar Bandaríkjanna í fyrra hafa andstæðingar þungunarrofs víða um landið krafist þess að það verði bannað.

Lyfið sem búið er að banna í Wyoming nefnist mifepristoneog og var samþykkt af bandaríska lyfjaeftirlitinu fyrir rúmum áratug síðan. Það hefur síðan þá verið fáanlegt á löglegan hátt í landinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert