Réðust á ráðstefnugesti í Stokkhólmi

Sænskt dagblað segir mennina vera úr röðum nýnasista. Mynd úr …
Sænskt dagblað segir mennina vera úr röðum nýnasista. Mynd úr safni. AFP

Þrír voru fluttir á sjúkrahús í Stokkhólmi eftir að grímuklæddir menn réðust inn á ráðstefnu vinstri flokka í gærkvöldi. Eru þeir m.a. sagðir hafa kýlt og sparkað í fólk.

Sænska dagblaðið Expo greinir frá en starfsmaður dagblaðsins, Klara Ljungberg, átti einmitt að flytja erindi sem gestafyrirlesari rétt áður en þrír til fimm svartklæddir menn með grímur gengu inn í salinn og réðust á gesti.

Ráðstefnan var haldin í hverfinu Gubbängen í Stokkhólmi. Hún var á vegum sænska Græningjaflokksins og sænska Vinstri flokksins.

Enginn handtekinn

Expo segir mennina vera úr röðum nýnasista. Þeir hafi ráðist á fólk og framið skemmdarverk á húsnæðinu áður en þeir köstuðu reyksprengju sem fyllti rýmið af reyk.

Þrír voru fluttir á sjúkrahús, að því er fram kemur á vef sænska ríkisútvarpsins SVT.

Enn hefur enginn verið handtekinn vegna upphlaupsins að því er fram kemur í viðtali sem SVT tók við Daniel Wikdahl, samskiptastjóra lögreglunnar í Stokkhólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert