Ísraelar hefna árásarinnar

Netanjahú hét að hefna árásarinnar.
Netanjahú hét að hefna árásarinnar. AFP/Ahmad Gharabli

Tveir bandarískir embættismenn hafa staðfest við CBS News að ísraelskt flugskeyti hafi hæft Íran í nótt. Þeir vildu þó ekki veita upplýsingar um umfang eða staðsetningu árásarinnar. 

Þá hefur ísraelskur embættismaður staðfest við Washington Post að Ísraelar hafi framið loftárás á Íran. Hann sagði árásina til þess gerða að senda skilaboð um að Ísraelar hefðu getuna til að gera árás innan landamæra ríkisins.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hét því að hefna loftárásar Írans á Ísrael um liðna helgi. 

Ekkert tjón á kjarnorkuverum

Íranskir fjölmiðlar greindu frá því í nótt að sprengingar hefðu heyrst við flug­völl í Is­fa­h­an, borg um miðbik Írans. Þá bárust einnig fregnir um spreng­ingu í ná­grenni Natanz, en þar í ná­grenn­inu hafa Íran­ar stundað kjarn­orku­rann­sókn­ir.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin greindi frá því á miðlinum X að ekkert tjón hefði orðið á kjarnorkuverum í Íran. Rafael Grossi, yfirmaður stofnunarinnar, hvatti til stillingar og ítrekaði að kjarnorkuver ættu aldrei að vera skotmörk í stríðsátökum.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert