Líkti drónunum við barnaleikföng

Hossein Amir-Abdollahian.
Hossein Amir-Abdollahian. AFP/Angela Weiss

Utanríkisráðherra Írans segir landið ekki hafa orðið fyrir utanaðkomandi árás og bætir við að stjórnvöld muni ekki bregðast við nema alvarlegt atvik eigi sér stað. 

Íranskir fjölmiðlar sögðu í gær frá því að sprengingar hefðu heyrst, að sögn embættismanns, eftir að litlir drónar voru skotnir niður.

Bandarískir fjölmiðlar höfðu eftir embættismönnum að Ísraelar hefðu gert árásir í hefndarskyni fyrir dróna- og eldflaugaárásina sem Íran gerði á Ísrael um síðustu helgi.

„Það sem gerðist síðustu nótt var ekki árás,” sagði Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, við NBC News.

Hann bætti við að drónarnir sem flugu yfir Íran hefðu verið tveir eða þrír. Þeir hefðu verið af svipuðum toga og leikföng sem írönsk börn nota.

„Svo lengi sem það eru engin ný ævintýri af hálfu ísraelskra stjórnvalda gegn hagsmunum Írans þá verða engin svör af okkar hálfu,” sagði hann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert