„Truflar mig persónulega ekki að einhverjir hafi hagnast“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvótakerfið var búið til þannig að allir landsmenn myndu njóta góðs af auðlindinni og aldrei hafa verið flutt út jafn mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið í sjávarútvegi og í fyrra. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Sprengisandi í dag. Ræddi hann þar stöðu sjávarútvegsins eftir Samherjamálið við Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar.

Kristján Kristjánsson, stjórnandi þáttarins, spurði þá út í ummæli Sigurðs Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi í gær. Sagði Sigurður Ingi þar að kvótakerfið hafi ekki verið búið til svo nokkrir einstaklingar gætu orðið ofurríkir. „Það var búið til svo Íslend­ing­ar all­ir gætu notið hags­bóta af öfl­ug­um ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi,“ sagði Sigurður í gær.

Bjarni sagði rétt að kerfið hafi verið búið til að allir myndu njóta góðs af því. Það hafi hins vegar ekki verið staðan þegar kerfið var sett á laggirnar. Sagði Bjarni að þá hefði miklir rekstrarerfiðleikar plagað greinina og þær sveitarstjórnir sem hafi fengið úthlutað kvóta hafi viljað losa sig úr erfiðri stöðu. „Megintilgangur kvótakerfisins hefur gengið eftir og gengið frábærlega,“ sagði Bjarni og bætti við: „Það truflar mig persónulega ekki að einhverjir hafi hagnast á þessari vegferð. Miklu betra en áður þegar menn voru að tapa.“

Þurfi að skoða skilgreiningu um tengda aðila

Kristján greip þá inn í og spurði hvort ekki skipti máli hversu margir væru að græða. „Það er rétt að ef heimildirnar safnast um of á fárra hendur þá er það eitthvað sem við verðum að hafa skoðun á og það eru viðmið í lögum sem setja þök á þetta og þau hafa dugað vel til að takmarka söfnun,“ svaraði Bjarni. Hann taldi þó ekki að önnur skilgreining ætti að eiga við um tengda aðila í sjávarútvegi en í öðrum atvinnurekstri.

Benti Bjarni á að ríkisstjórnin hefði nýlega kynnt aðgerðir sem meðal annars fælu í sér að nánar yrði skoðað hvernig tengdir aðilar væru flokkaðir þegar kæmi að sjávarútveginum. „Mörgum finnst eins og skilgreiningin sé allt of þröng og þurfi að taka til frekari tengsla. Þetta er atriði sem þarf að skoða,“ sagði hann.

Skattaeftirlit ekki bara áhugamál í tengslum við sjávarútveg

Bjarni tók sérstaklega fram að það sama gildi um sjávarútveg og aðrar greinar. „Við eigum að elta uppi og ná í skottið á þeim sem eru að stinga undan skatti. Ekki bara sérstakt áhugamál okkar í tengslum við sjávarútveginn,“ sagði hann og vísaði meðal annars til kaupa skattrannsóknarstjóra á gögnum úr skattaskjólum.

Sigurður færst nokkra sm á átt að Samfylkingunni

Logi sagði að ekki væri hægt að líkja sjávarútvegi við aðrar atvinnugreinar í landinu þar sem aðrar reglur giltu þar. Sagði hann að um takmarkaðar auðlindir væri að ræða og að ákveðin hefði verið aðferð til að úthluta þessum gæðum. Gagnrýndi hann að sjávarútvegsfyrirtæki treystu sér ekki til að bjóða í veiðiheimildir til að finna rétt verð og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki heldur viljað í þá vegferð. „Ég held að það sé það fyrsta sem við þurfum að breyta,“ sagði Logi.

Varðandi ummæli Sigurðar Inga sagði Logi að hann hefði líklega færst nokkra sentímetra frá Sjálfstæðisflokkinum í átt að Samfylkingunni með orðum sínum. Sagði hann að þetta atriði myndi líklega rata inn á fund formanna flokkanna um stjórnarskrána. „Það þurfa að koma inn ákvæði um tímabundnar heimildir og eitthvað um eðlilegt gjald svo það sé hafið yfir allan vafa að þetta sé bara til eignar eða að gefa ákveðnum aðilum þetta,“ sagði Logi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert