Fimm manns frá héraðssaksóknara staddir í Namibíu

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm starfsmenn frá embætti héraðssaksóknara eru nú staddir í Namibíu.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti það í stuttu samtali við mbl.is, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um tilgang ferðarinnar eða erindi starfsmannanna þar í landi.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru starfsmennirnir staddir í Windhoek, höfuðborg Namibíu.

Gera má ráð fyrir að ferðin tengist rannsókn embættisins á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja. Héraðssaksóknari hefur haft málið til rannsóknar í rúm fjögur ár.

Átta með réttarstöðu sakbornings

Vitað er að héraðssaksóknari óskaði eftir upplýsingum með réttarbeiðni til yfirvalda í Namibíu í lok árs 2022. Áður höfðu réttarbeiðnir frá Noregi og Spáni verið afgreiddar, en þær voru mun minni í sniðum.

Ólafur Þór sagði í samtali við mbl.is í nóvember 2022 að rannsóknin væri vel á veg komin. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur enginn verið boðaður í skýrslutöku hér á landi síðan þá, en átta manns hafa haft réttarstöðu sakbornings í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert