Enn beðið gagna frá Namibíu

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja er einn þeirra sem hafa …
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja er einn þeirra sem hafa stöðu sakbornings í málinu. Þrjú ár eru nú liðin síðan málið kom upp, en rannsókn hófst svo í kjölfarið.

Á laugardaginn eru þrjú ár frá því að Samherjamálið svokallaða komst í sviðsljósið. Málið er bæði í rannsókn í Namibíu og hér á landi, en umfang rannsóknarinnar hefur verið mjög mikið og jafnvel þannig að það hafi tafið aðrar skattarannsóknir. Svo er þó ekki lengur, en hvað tefur að málið fari í ákærumeðferð þar sem tekin er ákvörðun um hvort ákæra eigi eða fella málið niður?

Samkvæmt heimildum mbl.is er rannsókn málsins vel á veg komin hér á landi, en embætti héraðssaksóknara bíður þess enn að útistandandi réttarbeiðnir frá Namibíu verði að fullu afgreiddar þar í landi og gögn eða niðurstöður yfirheyrsla send til Íslands í tengslum við rannsóknina. Áður hafa réttarbeiðnir bæði frá Noregi og Spáni verið afgreiddar í málinu, en réttarbeiðnin til Namibíu er sú stærsta og hefur hún nú verið útistandandi síðan í haust. Er afgreiðsla beiðninnar nú stærsta einstaka atriðið sem stendur í vegi fyrir að rannsókn málsins sé kláruð.

Þar sem rannsókn er einnig í gangi í Namibíu hafa réttarbeiðnir þaðan einnig verið sendar hingað til lands, en samkvæmt heimildum mbl.is hafa þær að mestu leyti verið afgreiddar.

Átta með stöðu sakbornings

Sakborningar í málinu hafa samtals verið átta talsins, en það eru allt yfirmenn eða starfsmenn Samherja hér á landi og erlendis. Samkvæmt heimildum mbl.is eru þau öll enn með þá stöðu. Þetta eru Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, sem hefur starfað við ýmislegt fyrir Samherja undanfarin ár, bæði úti og hér heima. Að lokum er það Jóhannes Stefánsson sem var uppljóstrari í málinu og starfaði áður fyrir Samherja.

mbl.is/Sigurður Bogi

Rannsóknin snýr að meintum mútugreiðslum í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu, en einnig eru skattamál félagsins til rannsóknar hér á landi. Í umfjöllun Stundarinnar í dag er greint frá því að skattrannsóknin snúist um hundruð milljóna króna, en rannsókn yfirvalda hófst fyrir rétt rúmlega þúsund dögum.

Gott samband á milli rannsakenda

Á fundi í maí í höfuðstöðvum Europol í Haag funduðu aðilar frá héraðssaksóknara með aðilum frá Namibíu og var það álit íslenskra yfirvalda að vel hafi tekist til við að stilla saman strengi. Í júní kom svo sendinefnd frá Namibíu til Íslands, m.a. aðstoð­ar­for­sæt­is­ráð­herr­ann Net­umbo Nand­i-Ndaitwah. Sú heimsókn vakti helst athygli þar sem nefndin fundaði ekki með dómsmálaráherra, heldur aðstoðarmanni ráðherra, en samkvæmt heimildum mbl.is eru menn enn þeirrar skoðunar að gott samstarf og samband sé á milli rannsakenda í báðum löndum.

Í samtali við mbl.is segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari að rannsókn málsins sé vel á veg komin en vildi að öðru leyti lítið gefa upp um stöðu þess. Spurður hvort óþreyju sé farið að gæta varðandi svör frá Namibíu segir hann að gott samstarf sé á milli landanna og að allir séu áfram um að klára rannsóknina. Þá segir hann að eðlilega gangi samskipti milli ríkja sem almennt eigi í litlum samskiptum á þessum vettvangi oft hægar fyrir sig en t.d. þegar yfirvöld leiti til Norðurlandanna, en ítrekar að samstarfið gangi vel.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

Spurður hvenær búast megi við niðurstöðu í rannsókn málsins segir Ólafur að allir séu áfjáðir um að ljúka rannsókninni, en að enn séu óvissuþættir sem erfitt sé að spá um. Spurður hvort þar sé um að ræða m.a. gögnin frá Namibíu segir hann þau á meðal þess sem beðið sé eftir. Vill hann ekki gefa upp neinn tímaramma, en segir rannsóknina „komna á seinni hlutann.“ 

Rannsókn á Samherjamálinu hófst í nóvember árið 2019 eftir að Kveikur og Stundin fjölluðu um málefni félagsins í Namibíu og skattamál þess.

mbl.is