Sökuðu fjármálaráðherra um lögbrot

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Fyrir því er enginn fótur, ekki nokkur einasti fótur,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag þar sem hann gagnrýndi þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga harðleg fyrir að hafa sakað sig um lögbrot.

Málið snerist um svar Bjarna við fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, hvar Ágúst gagnrýndi ráðherrann fyrir að veita ekki meira fé til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra í fjárlagafrumvarpi næsta árs vegna rannsóknar á Samherjamálinu. Bjarni sagði ekkert liggja fyrir um að embættin væru ekki nægjanlega fjármögnuð. Hins vegar væru til varasjóðir vegna einstakra málaflokka og auk þess almennur varasjóður sem grípa mætti til ef ekki væru önnur úrræði.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sökuðu Bjarna um lögbrot fyrir að leggja að til að hægt yrði að nota almenna varasjóðinn við umræddar aðstæður. Ráðherrann sagði það hins vegar ekki standa til heldur hefði hann fyrst og fremst verið að vísa í varasjóði tengda einstökum málaflokkum sem ráðherrar gætu fært á milli málaflokka. Vísaði hann alfarið á bug ásökunum um lögbrot og hvatti forseta þingsins til þess að víta þingmenn fyrir það.

„Pólitísk tækifærismennska“

„Það er auðvitað ekkert annað en pólitísk tækifærismennska sem birtist okkur hér í þingsal þegar menn fara fram með þeim hætti að segja ríkisstjórnina, fjármálaráðherrann, ætla að fjársvelta stofnanir þegar við höfum margítrekað sagt að við höfum tekið erindin til alvarlegrar athugunar, við höfum tryggt fjármögnun fyrir skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra nákvæmlega í samræmi við það sem um var beðið og að beiðni héraðssaksóknara sé í eðlilegum farvegi,“ sagði ráðherrann.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar komu hverjir á fætur öðrum upp í pontu og gagnrýndu Bjarna fyrir ummæli hans um notkun varasjóða og fór svo að lokum að Bjarni yfirgaf þingsalinn. Talsvert var um frammíköll á báða bóga og sögðu stjórnarliðar að umræðan, sem fór fram undir liðnum fundarstjórn forseta, væri til skammar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert