Hjörleifur Guttormsson heiðraður

Hjörleifur Guttormsson.
Hjörleifur Guttormsson.

Hjörleifur Guttormsson, náttúrfræðingur og fyrrverandi ráðherra, hlaut á dögunum minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands.

Viðurkenningin er veitt aðila sem hefur skarað fram úr á einhvern hátt á sviði minjaverndar á Íslandi.

Hjörleifur hefur beitt sér ötullega í þágu náttúruverndar og sat í náttúruverndarráði um tíma auk þess sem hann stofnaði og rak Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað svo örfá dæmi séu tekin, að því er segir á vef Minjastofnunar Íslands.

Hjörleifur átti frumkvæðið að stofnun Safnastofnunar Austurlands árið 1972, sem voru regnhlífarsamtök safna á vegum sveitarstjórna á Austurlandi og var hann stjórnarformaður hennar fyrstu sex árin.

Hjörleifur beitti sér fyrir húsvernd á Austurlandi og fékk meðal annars Hörð Ágústsson til að skrá og meta gömlu húsin á Seyðisfirði. Einnig beitti hann sér fyrir friðun Löngubúðar á Djúpavogi.

Auk þess sem Hjörleifur hefur skrifað um fornleifar og örnefni í átta Árbókum Ferðafélags Íslands um Austfirði og birt þar myndir af minjum. Þá hefur hann skrifað um fornleifar á öðrum vettvangi og átt samvinnu um skráningu þeirra við ýmsa fornleifafræðinga.

„Umhyggja Hjörleifs og seigla hans við að skrifa og miðla upplýsingum um fornleifar á Austurlandi og þáttur hans í fornleifaskráningu er ein af meginástæðum þess að hann hlýtur minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar árið 2019,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert