Einn og hálfan tíma á leið til vinnu

Vetraraðstæður á höfuðborgarsvæðinu virðast hafa komið einhverjum á óvart í …
Vetraraðstæður á höfuðborgarsvæðinu virðast hafa komið einhverjum á óvart í morgun. Ljósmynd/Vegagerðin

„Það var smá „action“ í morgun, segir Árni Friðleifsson í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Umferð á höfuðborgarsvæðinu var þung í morgun en snjó hefur kyngt niður og sannkölluð vetrarfærð er í borginni.

Árni segir að umferðin hafi gengið alveg ofsalega hægt á níunda tímanum í morgun, þegar flestir voru á leið til vinnu eða skóla.

„Við vitum til þess að fólk hafi verið upp undir einn og hálfan tíma á leið í vinnu,“ segir Árni og bætir við að þar sé um að ræða fólk á leið úr Mosfellsbæ í vinnu í miðborg Reykjavíkur.

Árni segir að þrátt fyrir erfiða og þunga færð hafi óhöpp verið sárafá. Það sé í takt við hæga umferð.

Einhverjir ökumenn lentu í vandræðum í brekkum og þurfti lögreglan á tímabili að loka rampi af Kringlumýrarbraut upp á Bústaðaveg. „Bílar voru í vandræðum í brekkunni og komust ekki upp,“ segir Árni.

Hann segir að því miður sjái lögreglan einstaka bíl sem sé illa búinn til aksturs í svona vetrarfærð; séu ekki á nógu góðum dekkjum.

Spurður hvort aðstæður hafi ef til vill komið ökumönnum í opna skjöldu segir Árni að vissulega hafi ekkert í veðurkortum í gærkvöldi bent til þess að aðstæður yrðu eins og þær eru.

„En það er febrúar og við búum á landi sem heitir Ísland og hér er vetur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert