Ferðamenn kanni veðurspár vel

Fólk á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur.
Fólk á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gular viðvaranir taka gildi í dag og í kvöld á Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðausturlandi og miðhálendinu.

Á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðausturlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 19 en á Suðurlandi klukkan 13 og á miðhálendinu á miðnætti.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð 13-20 metrum á sekúndu með vindhviðum allt að 30 m/s í efri byggðum, á Seltjarnarnesi og við norðurströndina. Snjókoma eða skafrenningur verður á köflum og lítið skyggni. Ökumenn fari varlega.

Snjókoma eða skafrenningur

Spáð er rysjóttu veðri síðdegis og til laugardagsmorguns með snjókomu eða skafrenningi víða á landinu. Ferðamenn kanni veðurspár og færð vel áður en lagt er í hann, að því er segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á landinu í dag er spáð austlægri átt, 10 til 18 metrum á sekúndu og snjókomu með köflum eða skafrenningi á sunnanverðu landinu en 18-25 metrum á sekúndu syðst síðdegis. Hægara og úrkomulítið fyrir norðan.

Frost verður á bilinu 1 til 12 stig, kaldast á Norðausturlandi.

Á morgun er spáð austan 15 til 23 metrum á sekúndu, hvassast suðaustanlands og snjókoma eða slydda á austanverðu landinu en dálítil él vestan til. Dregur heldur úr frosti.  

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert