Stuðningur við ríkisstjórnina jókst töluvert

Ríkisstjórn Íslands mælist með næstum 53% sem er meira fylgi …
Ríkisstjórn Íslands mælist með næstum 53% sem er meira fylgi en fyrir mánuði síðan. mbl.is/​Hari

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi stjórnmálaflokka á Alþingi eða 27,4% fylgi, í nýrri könnun MMR. Samfylkingin mælist næst vinsælasti flokkurinn með 14,7% fylgi og þar á eftir eru Piratar með 10,2%

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 52,9% sem er rúmum 14% prósentustigum meira en í síðustu könnun MMR sem var gerð í seinni hluta febrúar.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig um sex prósentustigum frá síðustu könnun á meðan Samfylkingin og Píratar standa í stað.

Miðflokkurinn mældist með 10,0% fylgi og sem er 2,5% minna en í síðustu könnun. Vinstri grænir mælast með 9,8% fylgi sem er 0,1% minna en í febrúar.

Framsóknarflokkurinn bætir um hálfu prósentustigi við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 8,1% fylgi. Flokkur fólksins missir hins vegar næstum eitt prósentustig og mældist með 3,7%.

Sósíalistaflokkur Íslands sem ekki á mann á Alþingi mælist með 4,7% fylgi líkt og í febrúar.

Könnunin var framkvæmd 18. til 20. mars 2020 og var heildarfjöldi svarenda 1.034 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Sjá nánari niðurstöður könnunar MMR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert