„Metum störf kvenna að verðleikum“

Í eru fimmtíu ár frá því útvarpað var ákalli til kvenna á rauðum sokkum að mæta niður á Hlemm og mótmæla í kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar. Rauðsokkurnar marseruðu niður Laugaveginn 1. maí 1970 og endurnýjuðu femínísku baráttuna á Íslandi. Þetta kemur fram í ályktun frá Kvenréttindafélagi Íslands í tilefni af baráttudegi verkalýðsins.

„Mörg baráttumál Rauðsokkanna hafa áunnist síðustu hálfa öldina, en enn eru mörg óunninn. Kynbundið ofbeldi er geigvænlegt vandamál á Íslandi, konur hafa enn lægri laun en karlar og störf kvenna eru vanmetin.

Konur á Íslandi hafa lagt niður vinnu sex sinnum síðustu 45 árin til að mótmæla kynbundnum kjaramun. Konur eru þó enn með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar,“ segir meðal annars í ályktuninni.

Bent er á að Ísland og þjóðir heims glími nú við mesta heimsfaraldur síðan spænska veikin geisaði árið 1918. Þar sem konur standi að stórum hluta vaktina í framlínu í baráttunni við kórónuveiruna. „Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 76% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% prósent þeirra sem starfa við þjónustu og verslun. Án vinnuframlags kvenna væri baráttan við veiruna ómöguleg.

Covid-19 heimsfaraldurinn afhjúpar rangt verðmætamat vinnumarkaðarins. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það.

Nú er nóg komið.

Metum störf kvenna að verðleikum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert