Okkur fannst við öruggari hér

Orilee Ireland-Delfs og eiginmaður hennar, Tom, ákváðu að halda ekki …
Orilee Ireland-Delfs og eiginmaður hennar, Tom, ákváðu að halda ekki til síns heima þegar heimsfaraldurinn fór af stað líkt og flestir aðrir námsmenn. Morgunblaðið/Eggert

„Ég finn fyrir mun meira öryggi hér vegna þess hvernig stjórnvöld takast á við vandann. Og hvernig samfélagið tekst á við vandann. Hér er jafnvægis og gagnsæis gætt í aðgerðum í mun meira mæli en í Bandaríkjunum,“ segir bandaríski námsmaðurinn Tom Ireland-Delfs um viðbrögð Íslendinga við kórónuveirunni. 

Tom hefur búið hér á landi síðustu tvö árin á meðan hann leggur stund á nám í íslenskum miðaldafræðum við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann og eiginkona hans, Orilee, sem einnig er frá Bandaríkjunum, ákváðu að halda kyrru fyrir hér á landi á meðan kórónuveirufaraldurinn gengi yfir. Helsta ástæða þess var að Tom hefur undanfarið lagt lokahönd á meistararitgerð sína sem hann hyggst verja við háskólann í lok mánaðarins.

„Við töluðum um að fara heim því fyrir utan að hafa aðgang að háskólabókasafinu hefði hann getað klárað ritgerðina heima í Bandaríkjunum,“ segir Orilee, spurð hvort ákvörðunin um að halda kyrru fyrir hér á landi hafi verið auðveld.

„En eftir að hafa séð hvað var að gerast í Bandaríkjunum og vitandi að við hefðum þurft að fara í gegnum stóra flugvelli í New York hefði möguleikinn á sýkingu verið mikill. Við vildum ekki hætta á það. Miðað við hvernig Íslendingar hafa tekið á þessu máli fannst okkur við öruggari hér,“ segir Orilee.

Koma frá New York

Fyrir komuna til Íslands fyrir tveimur árum bjuggu þau Orilee og Tom í New York-ríki, í litlum bæ nokkuð langt frá borginni þar sem ástandið er hvað verst. „Við erum heppin því þar sem þetta er mjög strjálbýlt svæði hefur verið minna um sýkingar og áhrifin á daglegt líf minni,“ segir Orilee.

„Það var einnig ástæða þess að við fórum ekki heim. Að við myndum smitast á leiðinni og svo smita fjölskyldu okkar,“ bætir hún við en foreldrar hennar eru á gamalsaldri og því í áhættuhópi gagnvart sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur.

Tom kveðst ánægður með stjórnvöld á Íslandi. „Ég finn fyrir mun meira öryggi hér vegna þess hvernig stjórnvöld takast á við vandann. Og hvernig samfélagið tekst á við vandann. Hér er jafnvægis og gagnsæis gætt í aðgerðum í mun meira mæli en í Bandaríkjunum. Jafnvel þótt við kæmumst heim værum við mun öruggari hér. Ég held að fólk taki þetta ekki jafn alvarlega þar og hér.“

Orilee og Tom hyggjast halda heim til Bandaríkjanna í lok júní en leigusamningur á húsnæði þeirra rennur út fyrsta júlí. „Við bókuðum flug snemma því Icelandair hefur átt í vandræðum og þurft að aflýsa ferðum. Við viljum því gefa okkur smá aukatíma til að komast heim ef eitthvað kemur upp á,“ segir Tom.

Nánar er rætt við Tom og Orilee auk fleiri erlendra námsmanna sem enn eru hér á landi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert