Enginn veit hvernig á að opna landamæri

Frá blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum.
Frá blaðamannafundinum í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það veit í raun enginn hvernig á að opna landamæri eftir slæma farsótt. Þessar skimanir og opnun landamæra eru þess vegna svo breytilegar milli landa,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi vegna kórónuveiru.

Landamæri Íslands verða opnuð fyr­ir ferðamönn­um 15. júní og þá gefst fólki kost­ur á að fara í sýna­töku í stað þess að fara í tveggja vikna sótt­kví. 

„Er smit algengt, fátítt, eða ekkert hjá ferðamönnum?“ sagði Þórólfur og bætti því við að núna vissi enginn svörin við þessum spurningum. 

Þess vegna sé um að ræða nokkurs konar rannsóknarverkefni, annars verði rennt blint í sjóinn með opnun landamæra með mögulegum alvarlegum afleiðingum.

Þórólfur sagði verkefnið í sífelldu endurmati. Á einhverjum tímapunkti væri hægt að draga úr skimunum frá farþegum frá ákveðnum löndum, hætta skimunum frá ákveðnum löndum eða hætta skimunum alveg.

„Við gætum þurft að herða reglur um landamæri aftur ef mikið smit finnst,“ sagði Þórólfur og bætti við að með þessu væri lágmarksáhætta á því að veiran kæmi aftur inn í landið.

Hann ítrekaði að erlend vottorð ferðafólks vegna kórónuveirunnar verði ekki tekin gild og sagði að það myndi tefja fyrir á landamærastöðvum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert