Búnir að „ráðast á persónu Þórhildar“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/​Hari

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segist gera ráð fyrir því að taka við formennsku stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Þórhildur sagði af sér formennsku í dag og sakaði meirihluta nefndarinnar um að draga persónu sína niður í svaðið. 

„Samkvæmt samningum sem gerðir voru í upphafi þings fer þingflokkur Pírata með formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd svo við Þórhildur skiptum núna á nefndum og ég geri ráð fyrir að þeir samningar haldi, sem þýðir væntanlega að ég verði kosinn formaður á fundi nefndarinnar á miðvikudaginn,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Jón sat áður í nefndinni áður en Þórhildur tók við formennsku hennar. „Við vorum með hugmyndir um að skipta þessu upp en svo hugsaði ég bara að hún væri miklu færari, hún hefur verið formaður mannréttindanefndar Evrópuráðsins og sinnt því afskaplega vel. Þar sem menn eru tilbúnir að sinna vinnunni sinni faglega hefur hún staðið sig gríðarlega vel. Nú skulum við sjá hvort að þessir nefndarmenn fari að hegða sér,“ segir Jón. 

Þórhildur sagðist í dag hafa íhugað að segja af sér síðan meirihluti nefndarinnar ákvað að ekki væri tilefni til frekari athugunar á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra gagnvart útgerðarfélaginu Samherja. 

„Þessi nefnd var sett á fót í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og hún er byggð á því hvernig þetta var gert í Noregi. Tilgangur nefndarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, með ráðherrum. Það er kristaltært að eins og Þórhildur hefur stýrt nefndinni er nákvæmlega það sem formaður hennar á að gera. Ef það er vafi um það hvort ráðherra sé að fara rétt með sitt vald á að rannsaka það,“ segir Jón. 

„Þeir ákváðu greinilega bara að gera allt til að geta skemmt fyrir eftirlitshlutverkinu og draga persónu hennar inn í þetta. Þeir kannski bjuggust bara ekki við því að hún myndi bara draga sig út úr þessu.“

Vonar að nefndarmenn vakni

„Við skulum vona að þetta hafi látið þá sem í nefndinni eru, sem sitja í skjóli sinnar flokksforystu, að þetta hafi vakið þá upp fyrir því að svona sé bara ekki í boði. Nefndin þarf að sinna hlutverki sínu. Ég vona að menn vakni upp við þetta og átti sig á því að það er ekki í lagi að draga persónu formannsins inn í slag um það að stöðva að það sé haft eftirlit með ráðherra.“

Aðspurður hvort Jón hyggist reyna að nýju að hefja rannsókn á hæfi Kristjáns Þórs segir hann það ekki útilokað. 

„Þeir ætluðu að stoppa þetta en mér skilst að það sé ekki formlega búið að slíta því. Það eru enn þá spurningar sem minnihlutanum finnst ósvarað. Þá er ekkert annað en að fá bara gesti sem geta svarað því, eins og tilgangur nefndarinnar er,“ segir Jón. 

„Það hefur sýnt sig þarna að ef að menn nálgast þetta ekki af fagmennsku í því ljósi að gera það sem tilgangur laganna gengur út á, geta menn augljóslega skemmt fyrir eftirlitshlutverkinu. Það bara gengur ekki og við getum ekki leyft því að gerast. Þeir eru búnir að taka þennan slag, að ráðast á persónu Þórhildar, við skulum sjá hvað þeir gera núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert