Kindurnar á Vestfjörðum kunna að bjarga sér

Kindurnar eru greinilega lítið gefnar fyrir rok og rigningu.
Kindurnar eru greinilega lítið gefnar fyrir rok og rigningu. Ljósmynd/Björk Vilhelmsdóttir

Óvenjudjúp lægð gengur nú þvert yfir landið og hefur því bætt töluvert í vind á Vestfjörðum. Það stefnir í mikið vatnsveður þar fram á laugardag og ekkert ferðaveður verður á svæðinu samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands. En veðrið hefur ekki einungis áhrif á ferðaáætlanir mannfólksins heldur hefur það áhrif á skepnur sem dvelja utandyra.

Í facebookfærslu Bjarkar Vilhelmsdóttur félagsráðgjafa má sjá hvernig kindur hafa flúið rigningu og rok á Vestfjörðum og komið sér fyrir í skjóli inni í Breiðadalsgöngum.

Björk segir í samtali við mbl.is að hún hafi verið á leiðinni inn á Súgandafjörð og þá fyrst tekið eftir kindunum. Þær hafi nokkrar yfirgefið göngin er bíll hennar fór þar í gegn en þegar hún fór sömu leið til baka inn á Önundarfjörð hafi þær verið ennþá fleiri í göngunum og hafi látið sér fátt um finnast þegar hún keyrði þar í gegn. Enda veðrið þá orðið töluvert verra.

Færsla Bjarkar hefur vakið þó nokkra athygli og margir sem skrifa athugasemd við hana vilja meina að kindurnar séu klárari en margir halda og finni það á sér þegar óveður er í aðsigi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert